Stór brot úr þotunni fundust

Björgunarmenn á Jövuhafi, sem vinna að því að finna lík farþega farþegaþotu AirAsia sem hrapaði þar og flak vélarinnar, fundu í gær tvö stór brot úr þotunni. Varð það til að auka bjartsýni manna á að fleiri lík finnist og svarti kassinn sem geymir svörin við spurningum um hvað fór úrskeiðis í fluginu.

Farþegaþotan var á leið frá Surabaya í Indónesíu til Singapúr 28. desember síðastliðinn þegar hún hrapaði í Jövuhaf, skammt frá eyjunni Borneo, og voru 162 farþegar um borð. Afar vont veður var á svæðinu og óskaði flugstjórinn eftir að fá að hækka flugið úr 32.000 fetum í 38.000 fet til að forðast veðrið.

Tveimur mínútum síðar gaf flugumferðarstjóri flugstjóranum fyrirmæli um að beygja til vinstri og klifra upp í 34.000 fet. Hann fékk hins vegar engin svör frá flugvélinni. Radar sýndi þá merki frá flugvélinni sem bendir til að hún hafi þá enn verið á lofti. Stuttu síðar hvarf vélin af radar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka