Herða reglur gagnvart Sýrlendingum

Flóttamannabúðir sem hýsa flóttamenn frá Sýrlandi í Líbanon.
Flóttamannabúðir sem hýsa flóttamenn frá Sýrlandi í Líbanon. AFP

Líbönsk stjórnvöld hafa sett nýjar reglur varðandi sýrlenskt flóttafólk sem reyna að fá hæli í landinu vegna borgarastyrjaldar heima fyrir.

Hingað til hefur verið tiltölulega auðvelt fyrir Sýrlendinga að koma til Líbanon en nú verða þeir að sækja um vegabréfsáritun. Er þetta liður í aðgerðum stjórnvalda í Líbanon til þess að draga úr flóði flóttamanna en nú þegar er yfir ein milljón sýrlenskra flóttamanna í Líbanon. 

Samkvæmt frétt BBC er óvíst hvaða áhrif þessar hertu reglur hafa á þá Sýrlendinga sem eru þegar komnir til Líbanon en eru ekki skráðir sem flóttamenn. Því hingað til hafa Sýrlendingar geta dvalið í Líbanon í hálft ár án vegabréfsáritunar. En nú þurfa þeir að óska eftir vegabréfsáritun áður en þeir koma inn í landið. 

Alls er 1,1 milljón Sýrlendinga í Líbanon samkvæmt opinberum skráningum en talið er að þeir séu mun fleiri. Er jafnvel talið að um hálf milljón Sýrlendinga dvelji þar án þess að vera skráðir opinberlega. Fréttamaður BBC segir að þetta samsvari því að um 20 milljónir flóttamanna kæmu til Bretlands. Þessi flóttamannastraumur hefur haft víðtæk áhrif á efnahagslíf í Líbanon. Til að mynda hafi húsaleiga hækkað og laun lækkað. Flóttamennirnir búa allt að 10-15 í einu herbergi eða í flóttamannabúðum þar sem kuldi og vosbúð er daglegt brauð yfir vetrartímann.

Hatur á Sýrlendingum hefur aukist í Líbanon og í einhverjum bæjum og þorpum hefur þeim verið meinað að koma inn fyrir bæjarmörkin.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert