160 börn létu lífið í Sýrlandi

Sýrlensk börn í Aleppo.
Sýrlensk börn í Aleppo. AFP

Að minnsta kosti 160 börn létu lífið í árásum á skóla í Sýrlandi á síðasta ári. Jafnframt hefur skólagöngu 1,6 milljóna barna verið hætt í kjölfar átakanna. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sagði frá þessu í dag.

Í tilkynningu samtakanna kom fram að skólar ættu að vera „friðarsvæði“ og að nemendur ættu að geta lært í skólum án þess að vera í lífshættu. 

„Það var ráðist á að minnsta kosti 68 skóla í Sýrlandi á síðasta ári þar sem að minnsta kosti 160 börn létust og 343 særðust,“ sagði  Christophe Boulierac, talsmaður UNICEF, á blaðamannafundi í Genf í Sviss í dag.

„Það er þó mjög líklegt að það sé vanmat,“ bætti hann við. 

Á meðan margir skólanna urðu fyrir skothríð vegna átaka sem hafa verið í gangi síðan í mars 2011 sagði Boulierac að margt benti til þess að sumir skólanna hefðu verið skotmörk. 

„Árásir á skóla, kennara og nemendur eru hryllileg áminning um það hræðilega gjald sem sýrlensk börn hafa þurft að greiða fyrir ástandið sem varað hefur í næstum því fjögur ár,“ sagði fulltrúi UNICEF í Sýrlandi, Hanaa Singer, í yfirlýsingu. 

Á milli 1,3 og 1,6 milljónir barna í Sýrlandi geta ekki lengur gengið í skóla vegna borgarastyrjaldarinnar í landinu. Meira en 200 þúsund manns hafa látið lífið í styrjöldinni og helmingur íbúa er nú á flótta. 

Sýrlenskt barn leikur sér með byssu í bíl sem inniheldur …
Sýrlenskt barn leikur sér með byssu í bíl sem inniheldur eigur fjölskyldu barnsins. Þau voru á flótta frá Aleppo þegar myndin var tekin 2. janúar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert