Sprengjuvefur liggur yfir Írak

Gullhringur, stýripinni fyrir PlayStation-leikjatölvu og nuddbelti. Þetta hljómar eins og óskalisti fyrir jólagjafir en er í raun listi yfir hluti sem vígamenn Ríkis íslams hafa gert að gildrum, hlöðnum sprengiefni, og skilið eftir í Írak.

Þó að vígamennirnir yfirgefi svæði eru þeir ekki hættir að drepa. Að því hafa hermenn Kúrda í Írak komist sem og óbreyttir borgarar er þeir snúa aftur til heimkynna sinna sem áður voru á valdi Ríkis íslams. Gildrurnar leynast víða og erfitt getur reynst að forðast þær.

„Þetta fólk hefur frjótt ímyndunarafl, eins og djöflar,“ segir Marwan Sydo Hisn, kúrdískur sprengjuleitarsérfræðingur í Sinuni, bæ í norðvesturhluta Íraks. Vígamenn Ríkis íslams yfirgáfu bæinn í desember á síðasta ári.

„Sjáðu þetta,“ segir hann og bendir á mynd í síma sínum. „Við fundum þetta nuddbelti sem var stútfullt af sprengiefni. Það hefði sprungið í höndum þess sem hefði kveikt á því.“

Í öðru tilviki var sprengiefnið falið inn í sjónvarpstæki og í enn einu inn í stýripinna fyrir Playstation-leikjatölvu.

Þá fannst einnig sprengiefni í gullhring sem hafði kæruleysislega verið skilinn eftir á gólfi í húsi. Sá sem hefði tekið upp hringinn og sett hann á fingur sinn hefði sprungið í loft upp.

Sum húsanna eru hlaðin gildrum. Vírar og línur liggja um allt eins og vefur og tengja sprengiefnið við hurðahúna. 

Annar sprengjuefnasérfræðingur segir að 24 tegundir sprengiefnis hafi fundist. Hópur manna gengur nú hús úr húsi og leitar að gildrum sem þessum. Svæði í nágrenni Sinjar-fjalls virðist allt flækt í sprengjuvefinn.

Hópurinn hefur á 24 dögum fundið 410 sprengjur, samtals um fimm tonn af sprengiefni. Margar sprengjurnar hafa verið lagðar í vegkanta og bíða þar hljóðar eftir saklausum fórnarlömbum sínum. Sprengjusérfræðingarnir hlutu þjálfun hjá bandarískum kollegum sínum sem störfuðu í Írak þar til herinn hvarf þaðan árið 2011. En kúrdísku sérfræðingarnir eru ekki vel útbúnir til slíks verkefnis, sem er mjög hættulegt.

„Við erum ekki með sérstakar brynjur, við erum ekki með vélmenni til að leita - bara augun okkar,“ segir einn sérfræðinganna. Meðal þess búnaðar sem hann ber í bakpokanum sínum er dósaupptakari og límbandsrúlla.

Sprengjuefninu er safnað saman í geymsluhúsnæði sem er alls ekki öruggt þó járnhurð sé á því og orðið „HÆTTA“ standi á henni.

 Þeir tína upp fjölda sprengja í vegköntum á hverjum degi, stundum um 30 stykki. Þeir reyna að gera þær óvirkar eða sprengja á afviknum stað. 

Vígamenn Ríkis íslams hafa augljóslega haft mikið fyrir því að útbúa sprengjurnar. Brotavilji þeirra er einbeittur. „Þeir virðast hafa mikla sérþekkingu við að útbúa þennan búnað, þarna er eitthvað mjög reynt fólk á ferð. Þannig að til að gera sprengjurnar óvirkar, þarftu líka að vera með sérþekkingu,“ segir sprengjusérfræðingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert