Skothríð við bænahús í Kaupmannahöfn

EPA

Hleypt var af nokkrum skotum við bænahús gyðinga í Kaupmannahöfn skömmu eftir miðnætti. Þrír eru særðir eftir skothríðina. Einn maður fékk skot í höfðuðið og tveir lögreglumenn voru einnig skotnir, annars vegar í handlegg og hins vegar í fótlegginn.

Bænahúsið stendur við Kristalgötu á Norðurbrú.

Þyrlur fljúga yfir svæðið og beina ljóskösturum að því. Árásarmaðurinn gengur laus og er hafin umfangsmikil leit að honum. Viðbúnaður lögreglu er afar mikill á svæðinu.

Að sögn lögreglu flúði árásarmaðurinn fótgangandi frá bænahúsinu. Hann er klæddur í svartar buxur, er í svörtum skóm og gráum jakka. Lýsingin á honum gæti átt við árásarmanninn sem bar ábyrgð á skotárásinni sem gerð var á ráðstefnu á Austurbrú fyrr í dag. Hins vegar hefur hvorki fengið staðfest að sami maður sé þarna á ferð né hvort atvikin tvö tengist með einhverjum hætti. Lögreglan segir of snemmt að segja til um það.

Fréttamaður DR við Nørreport segir að búið sé að girða lestarstöðina þar, sem og við Friðriksborgargötu, af og loka fyrir umferð þar. Þá hefur Strikinu einnig verið lokað fyrir umferð.

Fyrri skotárásin í dag átti sér stað við leikhúsið Krudttönden á Austurbrú. Talið er að sú árás hafi beinst að sænska teiknaranum Lars Vilks, en hann var einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar sem fjallaði um guðlast og tjáningarfrelsi. 

Uppfært kl. 00:46:

Pete Milnes, tökumaður Sky News, sem er staddur rétt hjá bænahúsinu þar sem skothríðin átti sér stað, segist hafa heyrt í sex eða sjö byssuskotum. Um mínútu síðar hafi fjölmennt lið lögreglu komið á vettvang og þyrla flogið yfir svæðið. Hann sá lögreglu handtaka einn mann en sleppa honum stuttu síðar.

„Það voru um tuttugu til þrjátíu vopnaðir lögreglumenn með riffla sem kölluðu á heimamenn og báðu þá um að halda sig innandyra og loka gluggum,“ segir hann. Ástandið sé nú orðið rólegra á svæðinu. Umfangsmikil leit stendur yfir að árásarmanninum, sem er talinn hafa flúið fótgangandi.

Uppfært kl. 1:31:

Danska almannavarnadeildin biður alla sem eru nú staddir í miðbæ Kaupmannahafnar um að láta ættingja sína vita með smáskilaboði að þeir séu heilir á húfi. Lokað hefur verið fyrir umferð á Strikinu.

Fjöldinn allur af lögreglumönnum leitar enn að árásarmanninum sem skaut þrjá menn í höfuðið við bænahús gyðinga við Kristalgötu á Norðurbrú og flúði þaðan fótgangandi. Lögreglan nýtur jafnframt liðsinnis danskra hermanna við leitina. Þyrlur sveima yfir leitarsvæðin og beina ljóskösturum að þeim.

Hér má fylgjast með beinni útsendingu DR

Frétt Ekstra Bladet

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert