Nauðgaði barnungum gesti 10 sinnum

Jimmy Savile var stórtækur kynferðisbrotamaður.
Jimmy Savile var stórtækur kynferðisbrotamaður. AFP

Sjónvarpsmaðurinn Jimmy Savile beitti allt að 60 einstaklinga á Stoke Mandeville-sjúkrahúsinu kynferðislegu ofbeldi, þ. á m. alvarlega veik átta ára börn. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á vegum breska heilbrigðiskerfisins, NHS.

Savile hafði að því er virðist ótakmarkaðan aðgang að sjúklingum stofnunarinnar vegna frægðra sinnar og þrátt fyrir að tíu kvartanir hefðu verið lagðar fram vegna framferðis hans allt frá 1972, var engin þeirra tekin alvarlega né voru yfirmenn látnir vita.

Meðal fórnarlamba Savile var átta eða níu ára stúlka sem sjónvarpsmaðurinn nauðgaði tíu sinnum. Atvikin áttu sér stað þegar stúlkan heimsótti spítalann, en ættingjar hennar unnu á stofnuninni.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarteymisins var Savile tækifærissinnaður í brotum sínum, en í sumum tilfellum voru þau vel skipulögð.

Milli 1972 og 1985 voru níu óformlegar kvartanir lagðar fram gegn Savile og ein formleg kvörtun. Engar þeirra voru teknar alvarlega né var þeim komið áfram til yfirmanna á sjúkrahúsinu. Þess vegna var engum upplýsingum safnað um framferði Savile né gripið til ráðstafana, segir í skýrslunni.

Kate Lampard, sem stóð fyrir sjálfstæðri rannsókn á kynferðisbrotum Savile, hefur lagt fram tillögur til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Hún segir m.a. að spítalar og góðgerðasjóðir verði að setja reglur um heimsóknir frægs fólks og annarra „mikilvægra“ persóna. Þá leggur hún til að sakaskrár starfsmanna og sjálfboðaliða verði kannaðar á þriggja ára fresti.

Önnur aðskilin rannsókn leiddi í ljós að sjö konur hefðu sakað eldri bróður Savile, Johnny, um kynferðisofbeldi á Springfield-sjúkrahúsinu í suðvesturhluta Lundúna milli 1978 og 1980.

Savile hóf sjálfboðastörf á Stoke Mandeville 1969 og vegna frægðar sinnar hafði hann ótakmarkaðan aðgang á spítalanum. Samkvæmt skýrslu NHS fóru kynferðislegar aðdróttanir hans fyrir brjóstið á lægra settum starfsmönnum, en hann var í miklu uppáhaldi hjá yfirmönnum.

Árið 1980 var hann útnefndur til að safna fjármunum fyrir nýja miðstöð fyrir hryggáverka á sjúkrahúsinu, en samkvæmt skýrslunni varð stofnunin háð honum um fjármagn og hafði hann í kjölfarið óhindraðan aðgang að ungum fórnarlömbum á ýmsum fjársöfnunarviðburðum.

Í skýrslunni er að finna lýsingar á brotum Savile, en þar kemur t.d. fram að hann braut á sex barnungum einstaklingum eftir að hafa rekist á þá á göngum sjúkrahússins þegar þeir voru íklæddir spítalaserk og engu öðru.

Þá segir í skýrslunni að Savile hafi notið þess sérstaklega að fremja alvarleg brot þegar aðrir voru viðstaddir, en fórnarlömb hans gátu ekki gert viðvart um hvað var í gangi.

Guardian sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert