Tekin af lífi án dóms og laga

Hundruð voru í dag viðstödd útför konu sem var brennd lifandi eftir hrottalegar barsmíðar í Afganistan á fimmtudag. Ástæðan fyrir árásinni á konuna var sú að hún var sökuð um að hafa kveikt í eintaki af kóraninum.

Farkhunda, 27 ára, sem var tekin af lífi án dóms og laga af æstum lýð í miðborg höfuðborgarinnar, Kabul, var fylgt til grafar af fjölmörgum konum og körlum sem gagnrýna að slíkt voðaverk sé framið án þess að lögregla reyni að stöðva það.

Guð er almáttugur, Allah o Akbar, kallaði fólkið við útförina og krafðist þess að ríkisstjórn landsins gripi til aðgerða og drægi þá sem bera ábyrgð á morðinu fyrir rétt.

„Þetta er glæpur gegn þessari fjölskyldu, þetta er glæpur gegn systur og glæpur gegn mannkyninu,“ segir mannréttindaaðgerðarsinninn, Bari Salam. Hann segir að allir þeir sem stóðu að morðinu og studdu það eigi að svara til saka. 

Aftakan vakti gríðarlega reiði út um allan heim enda fylgdust lögreglumenn með án þess að lyfta litlafingri til að aðstoða ungu konuna en samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum glímdi Farkhunda við andleg veikindi og hefur gert það í mörg ár.

Faðir Farkhunda hefur hins vegar tjáð fjölmiðlum að dóttir hans hafi lokið prófi í íslömskum fræðum og kunnað kóraninn utanbókar. Hann segir ekkert hæft í því að dóttir hans hafi kveikt í hinni heilögu bók. Í sama streng tekur bróðir hennar. „Farkhunda var mjög trúuð stúlka. Hún var vön því að þylja upp úr kóraninum og bað fimm sinnum á dag,“ segir bróðir hennar, Najeebullah Malikzada. 

Í myndskeiðum sem hafa verið birt á samfélagsmiðlum sýna árásina á ungu konuna og að lögreglumenn fylgdust með þar sem hún var barin til bana og síðan kveikt í henni og varpað í nærliggjandi á.

Forseti Afganistan, Ashraf Ghani, fordæmir morðið og hefur krafist opinberrar rannsóknar. 

Frá útförinni í dag.
Frá útförinni í dag. AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert