Liðið afbókaði rétt fyrir flug

Þyrlur fluttu björgunarmenn á slysstaðinn í frönsku Ölpunum.
Þyrlur fluttu björgunarmenn á slysstaðinn í frönsku Ölpunum. AFP

Sænska knattspyrnuliðið Dalkurd FF átti bókað flug með flugvélinni sem hrapaði í frönsku Ölpunum. Leikmenn Dalkurd FF, sem spilar í þriðju deildinni í Svíþjóð, áttu að fljúga með Airbus A320-vél þýska lággjaldaflugfélagsins Germanwings en þegar liðið mætti á flugvöllinn í Barcelona var ákveðið að breyta flugáætlun liðsins.

Var það mat skipuleggjenda flugferðar liðsins að millilending í Duesseldorf væri of tímafrek þannig að ákveðið var að endurbóka liðið í þrjú önnur flug, með millilendingu í Zürich og München í stað millilendingar í Duesseldorf.

Flestir farþeganna um borð í flugvélinni voru spænskir og þýskir en einnig voru um borð flugfarþegar frá Ástralíu og Kólumbíu.

Að minnsta kosti 72 þjóðverjar og 49 Spánverjar um borð

Yfirvöld vinna nú að því að staðfesta þjóðerni þeirra sem létust, en einhverjir farþegar voru með tvöfalt ríkisfang sem flækir vinnu yfirvalda.

Germanwings hefur staðfest að a.m.k. 72 Þjóðverjar voru um borð, þar á meðal tvö ungabörn og 16 manna skólahópur ásamt tveimur kennurum frá menntaskóla í bænum Haltern. Yfirvöld á Spáni hafa staðfest að í það minnsta 49 Spánverjar hafi látist í flugslysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert