Það sem við vitum um flugslysið

Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaðurinn, við Golden Gate-brúnna í Kaliforníu.
Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaðurinn, við Golden Gate-brúnna í Kaliforníu. AFP

Orsakir flugslyssins í frönsku Ölpunum þykja nú liggja fyrir. Talið er að aðstoðarflugmaðurinn, Þjóðverjinn Andreas Lubitz, beri ábyrgð á slysinu. Hann var 28 ára, með litla reynslu en hafði öll tilskilin réttindi og hafði lokið allri sinni þjálfun. Nágrannar hans og vinir segja að hann hafi glímt við þunglyndi árið 2009 og þá gert hlé á flugþjálfun sinni. Hann tók svo aftur til við námið og var ráðinn til GermanWings árið 2013.

Hér eru helstu staðreyndir málsins sem þegar eru komnar fram:

  • Aðstoðarflugmaðurinn lækkaði flug vélarinnar vísvitandi. Það varð til þess að vélin brotlenti í frönsku Ölpunum. Flugstjórinn hafði brugðið sér á klósettið eftir að vélin náði fullri flughæð, 38 þúsund fetum. Hann komst aldrei aftur inn í flugstjórnarklefann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. „Þetta var vilja verk,“ sagði franski saksóknarinn, Brice Robin, á blaðamannafundi í dag. Ætlun flugmannsins hafi verið að „eyðileggja flugvélina.“
  • Flugstjórinn barði harkalega á hurð flugstjórnarklefans til að reyna að komast aftur inn. Það má heyra á upptöku úr klefanum sem var á flugritanum sem þegar er fundinn. Þá er líklegt að hann hafi slegið inn kóða sem á að gera það að verkum að hurðin opnast sjálfkrafa. Hins vegar er einnig líklegt að aðstoðarflugmaðurinn hafi ýtt á takka í flugstjórnarklefanum sem læsi hurðinni í 5 mínútur, þrátt fyrir að kóðinn sé sleginn inn.
  • Í Bandaríkjunum er þess krafist að tveir séu ávallt inni í flugstjórnarklefanum. Slíkt er ekki reglan í Evrópu. Í dag hafa þó nokkur flugfélög, m.a. Icelandair, ákveðið að taka slíkt upp. Sú regla er ekki í gildi hjá Lufthansa, móðurfélagi GermanWings. 
  • Aðstoðarflugmaðurinn hét Andreas Lubitz og var 28 ára. Hann hóf störf hjá GermanWings árið 2013. Hann hlaut þjálfun sína hjá Lufthansa í Bremen og Bandaríkjunum. Hann hafði flogið 630 tíma frá því að hann hóf störf.
  • Lufthansa segir að hann hafi gert hlé á þjálfun sinni árið 2009 en hafið hanna síðar að nýju. Forstjóri Lufthansa, Carsten Spohr, sagði á blaðamannafundi í dag að hann mætti ekki segja hvers vegna Lubitz gerði hlé á námi sínu.
  • Nágrannar og vinir Lubitz hafa sagt í fjölmiðlum í dag að  hann hafi líklega glímt við þunglyndi og því tekið sér leyfi frá þjálfuninni. 
  • Ættingjar þeirra sem fórust í slysinu eru komnir að slysstaðnum í frönsku Ölpunum. 
  • Enn er unnið að því að finna líkamsleifar í fjallinu.
  • Um borð í vélinni voru tveir flugritar. Annar þeirra er enn ófundinn.
Kveikt á kertum við menntaskóla í Þýskalandi. 16 nemendur skólans …
Kveikt á kertum við menntaskóla í Þýskalandi. 16 nemendur skólans fórust í slysinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert