Paxman grillaði leiðtogana

Paxman gerði úr því skóna að Miliband væri ef til …
Paxman gerði úr því skóna að Miliband væri ef til vill ekki rétti maðurinn í starfið. AFP

David Cameron forsætisráðherra Bretlands og Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, mættu hinum óvægna sjónvarpsmanni Jeremy Paxman í beinni útsendingu í gærkvöldi. Samkvæmt skoðanakönnun Guardian þótti áhorfendum Cameron standa sig betur, en Miliband hafði sigur samkvæmt samfélagsmiðlum.

Ekki var um að ræða kappræður milli leiðtoganna þar sem forsætisráðherrann útilokaði þann möguleika fyrir nokkru, en skipulagið var með þeim hætti að báðir sættu yfirheyrslu af hálfu Paxman og svöruðu spurningum áhorfenda í sjónvarpssal.

Cameron var fyrstur í stólinn og neyddist m.a. til að viðurkenna að hann vissi ekki hversu margir matarbankar væru í landinu og að sjálfur gæti hann ekki dregið fram lífið á svokölluðum núll klukkustunda samningi, en einstaklingum á slíkum samningi er ekki tryggð nokkur vinna heldur fá þeir aðeins verkefni ef það hentar atvinnurekandanum.

Þá þurfti Cameron að svara erfiðum spurningum um innflytjendamál og utanríkistefnu sína, og svara fyrir vinskap sinn við Green lávarð, fyrrum stjórnarformann HSBC, og sjónvarpsmanninn Jeremy Clarkson.

Paxman fór enn harðari höndum um Miliband og eggjaði hann til að svara því hvort hann væri maður til að sinna embætti forsætisráðherra. „Er ég nógu harður? Fjandinn já, ég er nógu harður til að vera forsætisráðherra,“ svaraði Miliband, og benti m.a. á að hann hefði staðið í hárinu á bæði Rupert Murdoch og Barack Obama.

Hann viðurkenndi að ríkisstjórn Tony Blair hefði gert ýmis mistök, en sagðist vera maðurinn til að taka Verkamannaflokkinn í rétta átt.

Báðir leiðtogarnir voru spurðir að því hverja þeir teldu helstu kosti andstæðings síns. Miliband hrósaði Cameron m.a. fyrir góða ákvörðun um hjónaband samkynhneigðra og Cameron sagði að svo virtist sem andstæðingur hans leitaðist við að gera það sem væri rétt fyrir landið.

Samkvæmt skoðanakönnun Guardian og ICM töldu 54% 1.123 manna rýnihóps að Cameron hefði staðið sig betur en Miliband. 56% þeirra sem sögðust mögulega myndu skipta um skoðun fyrir kosningarnar bentu hins vegar á Verkamannaflokkinn sem fýsilegan kost en 30% Íhaldsflokkinn.

Miliband virtist vinna slaginn á samskiptamiðlum, en #BattleForNumber10 skaust upp á topp Twitterumræðulista í Bretlandi og víðar í gær. Hinn eiginlegi sigurvegari var hins vegar Jeremy Paxman, en fjöldi fólks fagnaði því að sjá hann sýna gamla takta.

Útsendingin í gærkvöldi var samstarfsverkefni Sky og Channel 4 en 2. apríl næstkomandi mun ITV halda sjö leiðtoga viðræður og fimm leiðtoga viðræður 16. apríl, þar sem Íhaldsmenn verða fjarri góðu gamni. 30. apríl munu Cameron, Miliband og Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, síðan svara spurningum áhorfenda í sjónvarpssal í sérstakri útgáfu Question Time á BBC1.

Gengið verður til kosninga 7. maí næstkomandi.

Áhorfandi spurði Cameron að því hverja hann teldi helstu kosti …
Áhorfandi spurði Cameron að því hverja hann teldi helstu kosti Miliband. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert