Lækkaði flug þotunnar hratt

Frönsku saksóknararnir á blaðamannafundi í dag.
Frönsku saksóknararnir á blaðamannafundi í dag. AFP

Flugmaðurinn sem er talinn hafa grandað þýsku farþegaþotunni í frönsku Ölpunum lækkaði flug þotunnar mjög hratt og af ásettu ráði. Þetta fullyrða franskir saksóknarar, sem fara með rannsókn málsins, en þeir hafa skoðað seinni flugritann úr Airbus-þotunni sem fannst í gær.

Þeir segja að gögnin úr flugritanum sanni að flugmaðurinn hafi breytt hæðarstillingunni og aukið hraða þotunnar til þess að granda henni fyrr en annars.

Vonast er til að flugritinn muni varpa enn betra ljósi á atburðarásina sem átti sér stað áður en þotan fórst.

Alls létust 150 manns þegar þota þýska flugfélagsins Germanwings skall á fjallgarðinum á 700 km/klst þriðjudaginn 24. mars. Fyrri flugriti vélarinnar leiddi í ljós að flugmaðurinn, Andreas Lubitz, var einn í flutstjórnarklefanum þegar vélin fórst og er talið að hann hafi læst flugstjóra hennar úti þegar hann hafði brugðið sér á salernið. 

Fyrri flugritinn benti jafnframt til þess að farþegarnir hafi ekkert gert sér grein fyrir því í hvað stefndi fyrr en síðustu sekúndurnar en þá heyrast öskur þeirra á honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert