Skandínavar hættulegastir

Forseti Sýrlands Bashar al-Assad
Forseti Sýrlands Bashar al-Assad AFP

Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, segir að þeir hættulegustu meðal liðsmanna Ríkis íslams í Sýrlandi séu Skandínavar. Þetta kemur fram í viðtali við forsetann í Expressen.  Í viðtalinu þakkar hann Svíum fyrir hvað landið hefur tekið á móti mörgum sýrlenskum flóttamönnum en varar við hættunni af  skandínavískum hryðjuverkamönnum. 

„Á sama tíma og við sjáum hryðjuverkastarfsemi aukast í ólíkum evrópskum löndum geta Svíar ekki verið öryggir,“ segir al-Assad í viðtalinu þegar hann er spurður út í fjölgun Skandínava sem hafa farið til Miðausturlanda til þess að berjast með Ríki íslams og öðrum öfgahópum.

„Hryðjuverk eru ekki innanlandsmál, þau eru jafnvel ekki svæðisbundin, þau eru alþjóðleg,“ segir al-Assad.

Talið er að um sex þúsund Evrópubúar hafi farið til Sýrlands til þess að berjast með öfgahópum og sænska öryggislögreglan (Säpo) segir að 150 Svíar hið minnsta hafi farið til Sýrlands eða Íraks til þess að berjast með Ríki íslams og öðrum öfgahópum. Að minnsta kosti 35 þeirra hafa fallið í bardögum þar. Um 50 hafa snúið til baka til Svíþjóðar og gerir Säpo ráð fyrir að þeir eigi eftir að snúa aftur til Sýrlands og Íraks. Lítið sé hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert