Mesta manntjón í sögunni

Allt bendir til þess að 650 manns hafi farist með flóttabát á Miðjarðarhafi í gær en einungis 50 af þeim 700 sem voru um borð hafa fundist á lífi. Ef þetta reynist rétt þá er þetta mesta manntjón sem orðið hefur á Miðjarðarhafi þar sem flóttamenn reyna að komast til Evrópu í leit að betra lífi.

Í síðustu viku fórust 400 flóttamenn þegar bát þeirra hvolfdi skammt frá Líbíu og í október 2013 fórust tveir bátar og tæplega 600 flóttamenn sem voru um borð í þeim skammt frá ítölsku eyjunni Lampedusa.

Yfirmaður flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), António Guterres, segir þetta gríðarlegt áfall og nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Samkvæmt nýjum upplýsingum frá yfirvöldum á Möltu hafa ekki nema 50 fundist á lífi en tilkynning um slysið barst skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi.

Báturinn sem fórst í gærkvöldi var í um 180 km fjarlægð frá Lampedusa á leið frá Líbíu. Ítalska strandgæslan sem og strandgæsla Möltu, alls 20 skip, leita nú að fólki í sjónum og eins hefur verið leitað úr lofti. Það eru ítölsk yfirvöld sem stýra aðgerðum. UNHCR bíður nú upplýsinga um hvert verður farið með þá sem lifðu af. 

„Þetta stórslys staðfestir hversu mikilvægt það er að endurvekja kraftmiklar sameiginlegar aðgerðir á sjó og koma á löglegum leiðum til þess að komast til Evrópu. Að öðrum kosti heldur fólk sem er í leit að öryggi áfram að farast á hafi úti,“ segir António Guterres.

Hann segir mikilvægt að Evrópa standi sem heild að því að nálgast rætur þess að allt þetta fólk leggur af stað út í opinn dauðann. Hann segist vona að Evrópusambandið muni auka almennar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að slíkur harmleikur endurtaki sig.

Það sem af er ári hafa 35 þúsund hælisleitendur og fólk í leit að betri lífskjörum (migrants) komið að landi í suðurhluta Evrópu og ef 650 fórust í gærkvöldi þá hafa 1.600 látist á Miðjarðarhafi það sem af er árinu. Á síðasta ári fóru 219 þúsund þessa leið til Evrópu og létust 3.500 á leiðinni.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert