Móðir og 5 börn létust í árásum

AFP

Móðir og fimm börn hennar voru meðal þeirra 19 óbreyttu borgara sem létust í loftárásum í héraðinu Daraa í Sýrlandi í dag. Öll börnin voru undir 18 ára.

Árásin var gerð á þorpið Dael þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum. Tveir bræður og annar ættingi þeirra létust í sömu árás.

Stjórnvöld hafa aukið við loftárásir á svæðinu eftir að hafa misst yfirráð á ákveðnum landsvæðum í Daraa á undanförnum mánuðum.

Það var í Daraa sem friðsæl mótmæli brutust út gegn stjórn forsetans Bashar al-Assad sem leiddi til blóðugrar uppreisnar. Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar eru stjórnvöld að reyna að ná til baka því sem þau hafa misst, en í leiðinni að drepa saklausa borgara.

Uppreisnarmenn hafa jafnframt náð yfirráðum á landamærunum til Jórdaníu og í fornu borginni Bosra al-Sham. Í norðausturhluta landsins hafa stjórnvöld einnig misst yfirráð yfir borginni Idlib.

Yfir 215 þúsund manns hafa verið drepn­ir í Sýr­landi frá því stríðið hófst þar fyr­ir fjór­um árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert