Ótti og örvænting í Katmandú

Margir hafa þurft að horfa upp á lík ættingja sinna …
Margir hafa þurft að horfa upp á lík ættingja sinna vera grafin upp úr rústum húsa eftir jarðskjálftann. AFP

Alþjóðlegar rústabjörgunarsveitir eru enn að leita að fólki í rústum bygginga í Nepal eftir jarðskjálftann sem reið yfir á laugardag og fleiri eru enn á leiðinni. Tugir þúsunda heimamanna hafa hafst við í tjaldborgum í ótta og örvæntingu í dag. Hátt á fjórða þúsund manns eru nú staðfestir látnir.

Fólk sem missti heimili sín í jarðskjálftanum sem var 7,8 að stærð hefur hafst við í görðum og opnum rýmum í höfuðborginni Katmandú. Fjöldi annarra þora ekki að snúa heim til sín af ótta við öfluga eftirskjálfta sem enn halda áfram. AFP-fréttastofan segir að fólkið hafi aðeins plast til verjast kuldanum og rigningunni. Margir þurfi á hjálp að halda og upplýsingum um hvað þeir eigi til bragðs að taka næst.

„Það er bara of mikill ótti og örvænting. Við vitum ekki hvað við eigum að gera næst eða hversu lengi við þurfum að vera hérna,“ segir Bijay Sreshth sem leitaði vars í garði með börnunum sínum þremur, eiginkonu sinni og móður þegar skjálftinn reið yfir. Hann var að hlusta á útvarpið þegar fréttamaður AFP ræddi við hann og beið þess að heyra einhver skilaboð frá stjórnvöldum.

Langar raðir hafa myndast við bensínstöðvar og matvöruverslanir þar sem fólk hefur hamstrað nauðsynjar eins og hrísgrjón og matarolíu. Fulltrúar stjórnvalda segja að þörf sé fyrir hreint vatn og aðrar nauðsynjar fyrir eftirlifendur auk þess að herða þurfi leit og björgun fólks utan höfuðborgarinnar.

„Hún þurfti ekki að deyja“

Stór hluti gamla hluta Katmandú er rústir einar, rafmagn hefur slegið út og farsímakerfið er að sligast undan álagi. Fulltrúar barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segja að um milljón barna búi á hamfarasvæðunum og þau þurfi nauðsynlega á hjálp að halda.

Enn er verið að leita að fólki í rústum húsa í höfuðborginni. Í Balaju-hverfi í Katmandú þurfti faðir sem AFP ræddi við að þola þá raun að horfa upp á björgunarsveitarmenn grafa lík 14 ára gamallar dóttur hans upp úr rústum hússins þeirra með gröfum, hömrum og berum höndum.

„Hún var mér allt, hún gerði ekkert rangt, hún þurfti ekki að deyja,“ segir Dayaram Mohat, harmi sleginn þegar hann frétti dauða dóttur sinnar Prasamsah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert