Drakk eigið þvag og lifði af

Barn sem fannst í rústunum flutt á sjúkrahús í Katmandú.
Barn sem fannst í rústunum flutt á sjúkrahús í Katmandú. AFP

Karlmaður sem bjargað var úr húsarústum í Nepal drakk eigið þvag til að lifa af. Frönsk björgunarsveit fann manninn á lífi í rústunum þremur dögum eftir að jarðskjálftinn mikli varð.

Rishi Khanal er 27 ára. Hann hafði nýlokið við að snæða hádegisverð á hóteli í Katmandú og var kominn upp á 2. hæð þess er gólfið fór að hreyfast undir fótum hans. Hann varð fyrir steinhleðslu sem féll og fótur hans festist undir steinunum.

„Ég var vongóður en í gær hafði ég gefist upp,“ segir Khanal í samtali við The Guardian. „Neglur mínar urðu hvítar og varir mínar sprungu... ég var viss um að enginn myndi koma að bjarga mér. Ég var viss um að ég myndi deyja.“

Khanal liggur nú á sjúkrahúsi. Hann segir að í þrjá daga hafi hann verið umkringdur líkum og lyktin hafi verið hrikaleg. Hann hélt áfram að berja á hluti til að vekja athygli á sér og að lokum heyrðu franskir björgunarmenn í honum. Það tók fleiri klukkustundir að ná honum út úr rústunum. Þegar loks tókst að losa hann hafði hann verið fastur í rústunum í 82 klukkustundir.

„Ég heyrði ekkert hljóð. Ég hélt áfram að berja í hluti í kringum mig og loksins heyrði einhver í mér og kom til hjálpar. Ég hafði ekkert borðað og hafði ekkert að drekka svo ég drakk mitt eigið þvag.“

Yfir 5.000 manns létust í jarðskjálftanum. Meira en 10 þúsund slösuðust. Jarðskjálftinn var 7,8 stig og í kjölfarið fylgdu stórir eftirskjálftar. Mannfall varð einnig á Indlandi, í Tíbet og Bangladess.

Kona leitar að eigum sínum í rústum húsa.
Kona leitar að eigum sínum í rústum húsa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert