Hafa frelsað 700 nígerískar konur úr ánauð

Nígerískir hermenn ræða við stelpur sem bjargað var úr klóm …
Nígerískir hermenn ræða við stelpur sem bjargað var úr klóm hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. AFP

Nígerískar hersveitir hafa frelsað um 700 konur og börn úr klóm hryðjuverkasamtakanna Boko Haram á undanförnum dögum. Þeim hefur verið haldið í vígi samtakanna í Sambisa-skógi. Enn ríkir óvissa um örlög 219 kvenna sem var rænt úr skóla í Chibok á síðasta ári.

234 konum og börnum var bjargað í síðustu björgunaraðgerð hersins á fimmtudag en skrifstofa varnarmála tilkynnti um þetta. „Þær hafa nú verið fluttar á stað þar sem borið verður kennsl á þær,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofunni.

Nígeríski herinn hefur ráðist í umfangsmiklar aðgerðir gegn samtökunum í Sambisa-skógi. Um 500 gíslum hafði verið bjargað fyrir aðgerðina á fimmtudag. Hefur því um 700 gíslum verið bjargað úr klóm hryðjuverkamanna að undanförnu.

Yfirmenn nígeríska hersins hafa sagt að árásir í skóginum muni halda áfram úr ólíkum áttum og er lögð áhersla á að bjarga gíslum og óbreyttum borgurum úr haldi hryðjuverkasamtakanna, ásamt því að eyðileggja herbúðir íslamista og búnað þeirra í skóginum.

Sani Usman, talsmaður hersins, sagði við AFP í dag að gíslarnir hefðu verið frelsaðir án mikillar mótspyrnu uppreisnarmanna.

„Hryðjuverkamenn veittu litla sem enga mótspyrnu í aðgerðunum á fimmtudag þannig að enginn gísl særðist í þetta sinn,“ sagði hann og bætti við að frelsuðu gíslarnir séu í áfalli og sumir þeirra veikir. Hópurinn verður nú fluttur þar sem gíslarnir verða auðkenndir. Uman segir það þekkt að hryðjuverkamenn noti konur í hryðjuverkaárásum. „Þeir hafa notað þær í sjálfsmorðssprengjuárásir og því verður að auðkenna þær,“ segir hann.

Samkvæmt tölum Amnesty International hefur tvö þúsund konum og börnum verið rænt af hryðjuverkasamtökum frá því í upphafi síðasta árs. Aðgerðir nígeríska hersins á undanförnum dögum og fjöldi gísla sem hefur verið bjargað undirstrika það hversu slæmt ástandið er í landinu hvað þetta varðar.

Konur sem hafa verið frelsaðar úr ánauð hafa lýst því hvernig þær voru neydda til þess að vinna ásamt því að hafa verið misnotaðar andlega og kynferðislega. Þá segjast þær stundum hafa þurft að berjast á víglínum við hlið uppreisnarmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert