Litla stúlkan í ómerktri gröf

Undir greinum bananatrjánna eru aðeins örfá blóm til merkis um að þar hvíli þriggja ára stúlka, Shahira Bibi. Síðustu vikur lífs hennar voru skelfilegar en hún var í hópi flóttafólks sem var um borð í báti sem fórst undan ströndum Indónesíu.

Stúlkan var frá Búrma. Henni var bjargað úr sökkvandi bátnum en lítill líkami hennar, illa farinn af vannæringu, þoldi ekki hrakningarnar. 

Um 100 manns höfðu þegar dáið um borð í bátnum er átök brutust út milli rohingya-múslíma og flóttamanna frá Bangladess. Deilurnar snérust um skiptingu matar og vatns. Fólkið hafði verið á sjó vikum saman og matur og vatn af skornum skammti.

Er deilurnar hörðnuðu fór báturinn að sökkva. Sjómenn sem voru við veiðar í nágrenninu sáu í hvað stefndi og komu flóttafólkinu til bjargar. Þetta gerðist þann 15. maí.

Shahira litla var flutt á sjúkrahús en hún var þá þegar orðin mjög veik. Það var því ekkert sem læknarnir gátu gert til að bjarga lífi hennar.

Á undanförnum tveimur vikum hafa yfir 3.500 flóttamenn komið til Indónesíu, Taílands og Malasíu. „Ég er mjög sorgmædd,“ segir Mimi, móðir Shahiru. Hún segist hafa grátið stöðugt frá því dóttir hennar dó. Hún á aðra dóttur, Asma, sem er fjögurra ára. Hún var einnig um borð í bátnum og komst lífs af.

Fjölskyldan var á flótta frá Búrma en þar eru rohingya-múslímar ofsóttir. Fjölskyldan var á leið til Malasíu er báturinn sökk. Líkt og oft vill verða yfirgaf skipstjórinn bátinn er hann kom til hafnar á Taílandi. Það var því upplausn um borð er ferðinni var haldið áfram til Malasíu.

Gríðarlega erfitt er fyrir flóttafólkið að komast í land í Taílandi og einnig í Malasíu vegna mjög strangra innflytjendalaga. 

„Í fyrstu heyrði ég hana gráta lágt,“ segir hjúkrunarfræðingurinn sem tók á móti Shahiru litlu. Líkami hennar hafi verið stífur og hnefarnir krepptir vegna langrar og mikillar vannæringar.

Læknarnir reyndu í nokkra daga að halda í henni lífinu. En hún var of veik. Hún var svo grafin í kirkjugarði í Indónesíu, langt frá heimalandi sínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert