Pelé um Blatter: „Hann er fullkominn“

Pelé hrósar Blatter eftir endurkjörið.
Pelé hrósar Blatter eftir endurkjörið. AFP

Sepp Blatter, sem var endurkjörinn forseti FIFA síðastliðinn föstudag, hefur sætti mikilli gagnrýni undanfarna viku eftir að fjöldi stjórnarmanna knattspyrnusambanda í Ameríku voru handteknir, grunaðir um spillingu og fjárdrátt.

Einn af þeim sem aftur á móti hrósar Blatter er sjálfur Pelé, fyrrum heimsmeistari í knattspyrnu. „Forsetakjörið er fullkomið. Við þurfum mann með reynslu á toppnum í FIFA,“ segir Pelé samkvæmt þýska tímaritinu Bild. „Markmið fótboltans er að veita fólki ánægju og dreifa gleðinni,“ bætir hann við.

Fjölmiðlar telja sumir að hann sé nú að endurgjalda Blatter greiða eftir að Pelé hlaut titilinn „Leikmaður aldarinnar“ árið 2000 þrátt fyrir að hafa tapað atkvæðagreiðslunni fyrir Diego Armando Maradona. Þá ákvað Blatter að útdeila skyldi tveimur titlum, Pelé yrði besti leikmaður aldarinnar og Maradona yrði vinsælasti leikmaður aldarinnar. Maradona var allt annað en sáttur við það á sínum tíma. 

Annar maður tjáði sig um Blatter í dag. Jack Warner, sem er einn af þeim sem handteknir voru síðasta fimmtudag af  FBI segir að lögreglan ætti einnig að rannsaka Blatter. Warner var varaforseti FIFA en þurfti að segja af sér í kjölfar handtökunnar í heimalandi sínu, Trinidad og Tobagó. „Hvers vegna er enginn að rannsaka Blatter? Enginn annar hefur komið jafnmikilli skömm á FIFA og hann,“ sagði Warner við fjölmiðla eftir að hann var látinn laus úr haldi lögreglu. Aðspurður hvort hann telji Blatter spilltan, svarar Warner: „Það eina sem ég veit er að Blatter var endurkjörinn í fjórða skiptið. Er hann spilltur? Ég veit það ekki.“ Hann segir að tími sé til kominn til þess að Blatter hleypi yngra fólki að í æðstu stjórn sambandsins. 

Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA.
Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert