Rekin fyrir að gefa börnum mat

Samkvæmt skólayfirvöldum ber skólum ekki að útvega matarlausum nemendum heita …
Samkvæmt skólayfirvöldum ber skólum ekki að útvega matarlausum nemendum heita máltíð. Ljósmynd/Wikipedia

Matráði í grunnskólamötuneyti í Denver borg í Bandaríkjunum hefur verið sagt upp störfum eftir að hún gaf börnum í mötuneytinu máltíðir sem þau höfðu ekki greitt fyrir. Samkvæmt reglum skólans fá þeir nemendur sem hvorki mæta með nesti né greiðslueyri fyrir heitum hádegismat eitt hamborgarabrauð með ostsneið og litla mjólkurfernu.

Matráðurinn, Della Curry, segist í samtali við CBS átta sig á því að hún hafi brotið reglur skólans með því að gefa börnunum heitar máltíðir, en hún sjái þó ekki eftir gjörðum sínum. „Ég var með grátandi fyrsta árs nema fyrir framan mig sem var ekki með nægan pening fyrir hádegismat. Auðvitað gaf ég honum máltíð,“ segir Curry.

Í yfirlýsingu frá skólayfirvöldum á svæðinu kemur fram að skólum beri ekki skylda til að útvega nemendum sem gleyma nestinu sínu ókeypis máltíðir.

Samkvæmt frétt Sky News hefur Curry áður greitt fyrir máltíðir nemenda í sömu stöðu úr eigin vasa, en foreldrar barna við skólann hafa nú látið í sér heyra og mótmælt brottrekstrinum. Þeir segja hana eiga að hljóta viðurkenningu fyrir góðmennsku sína, en ekki refsingu.

Frétt Sky News

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert