Reisa minnisvarða um launmorðingja

Teikning af morðinu á Franz Ferdinand erkihertoga og eiginkonu hans.
Teikning af morðinu á Franz Ferdinand erkihertoga og eiginkonu hans.

Borgaryfirvöld í Belgrad, höfuðborg Serbíu, hafa í hyggju að reisa minnisvarða í borginni til heiðurs Gavrilo Princip sem myrti Franz Ferdinand erkihertoga af Austurríki-Ungverjalandi árið 1914 sem var neistinn sem kom fyrri heimsstyrjöldinni af stað. Fram kemur í frétt AFP að gert sé ráð fyrir að minnisvarðinn verði afhjúpaður í lok þessa mánaðar.

Haft er eftir Goran Vesic, embættismanni hjá Belgrad-borg, að með minnisvarðanum sé ætlunin að heiða mann sem hafi markað djúp spor í serbneska sögu og fórnað öllu fyrir frelsi. Princip, sem var aðeins 19 ára þegar hann skaut erkihertogann og eiginkonu hans til bana í borginni Sarajevo 28. júní 1914, var handtekinn ásamt samverkamönnum sínum í kjölfar árásarinnar og dæmdur í fangelsi þar sem hann lést árið 1918. Austurríki-Ungverjaland notaði morðið sem ástæðu til þess að gera innrás í Serbíu sem að lokum leiddi til fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Princip er umdeildur á Balkanskaganum. Sumir telja hann ástríðufullan serbneskan þjóðernissinna sem hafi viljað frelsa slava undan kúgun Austurríkis-Ungverjalands en aðrir líta á hann sem hryðjuverkamann sem hafi komið af stað einu mesta blóðbaði sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert