Fjórir berjast um leiðtogasætið hjá Verkamannaflokknum

Andy Burnham er hér lengst til vinstri, Yvette Cooper númer …
Andy Burnham er hér lengst til vinstri, Yvette Cooper númer tvö frá vinstri og Liz Kendall til hægri. Þau eru öll að berjast um leiðtogasætið hjá Verkamannaflokknum í Bretlandi. AFP

Nú liggur fyrir hverjir verða í framboði í baráttunni um embætti leiðtoga Verkamannaflokksins í Bretlandi. Ed Miliband fyrrum leiðtogi flokksins sagði af sér eftir kosningaósigurinn í maí og verður kosið um eftirmann hans í september á þessu ári.

Andy Burnham er talinn sigurstranglegastur og fylgir Yvette Cooper fast á hæla hans. Einnig er Liz Kendall nefnd sem líklegur sigurvegari. Auk þeirra er Jeremy Corbin í framboði en honum tókst með herkjum að útvega sér nægilega margar tilnefningar í tæka tíð.

Til þess að fá að bjóða sig fram sem leiðtogi flokksins, þurfa frambjóðendur að fá tilnefningu frá að lágmarki 15% þingmanna flokksins sem þýðir í dag 35 þingmenn. Þingmenn mega ekki veita tveimur frambjóðendum tilnefningu.

Corbin ákvað afar seint að gefa kost á sér og bjuggust fáir við að hann myndi ná tilætluðum fjölda tilnefninga. En aðeins örfáum mínútum áður en fresturinn rann út í dag, náði hann upp í 35 og verður nafn hans því á kosningaseðlinum í haust. Corbin er talinn tilheyra vinstrivæng flokksins á meðan Kendall er talin tilheyra Blair-hópi flokksins, sem studdi Tony Blair, fyrrverandi leiðtoga flokksins. Fáir telja hann eiga raunverulegan möguleika á að sigra en binda þó vonir við að raddir vinstrivængsins fái breiðari hljómgrunn.

Sjá frétt The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert