Stunginn við grafreit í Ósló

Ekkert lát virðist á hnífstungum og skotárásum í Ósló. Maður …
Ekkert lát virðist á hnífstungum og skotárásum í Ósló. Maður á sextugsaldri var stunginn þar í borginni í gær. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Maður á sextugsaldri liggur alvarlega særður á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló í Noregi eftir að hafa verið stunginn með eggvopni við kirkjugarðinn Vår Frelsers Gravlund sem er í nágrenni við miðbæinn.

Lögreglunni barst tilkynning um atburðinn um klukkan 21 í gærkvöldi og segir Bjørn Gunnar Nysæter lögregluvarðstjóri við norska ríkisútvarpið NRK að sjúkrabifreið hafi komið á vettvang von bráðar og áhöfn hennar hafið fyrstu hjálp.

Einn að verki

„Maðurinn var fluttur með hraði á sjúkrahús, ástand hans er enn talið alvarlegt,“ segir Nysæter við NRK og bætir því við að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki miðað við þær upplýsingar sem lögreglan hafi. Fleiri hafi þó sést forða sér af vettvangi eftir að lagt hafði verið til fórnarlambsins.

Í dag mun maður á fimmtugsaldri hafa gefið sig fram við lögregluna í Ósló. Sá var handtekinn og er nú grunaður um stórfellda líkamsárás. Kveðst lögregla vita til þess að tengsl séu milli árásarmannsins og fórnarlambsins.

Hafði lögregla uppi mikinn viðbúnað og beitti hundum og þyrlu við leit að árásarmanninum sem var hætt er hann gaf sig fram.

NRK

VG 

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert