Ríki íslams lýsir yfir ábyrgð

Frá vettvangi í ferðamannabænum Sousse í Túnis.
Frá vettvangi í ferðamannabænum Sousse í Túnis. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu í kvöld yfir ábyrgð á voðaverkunum í Túnis. 38 manns létu lífið þegar vígamaður samtakanna, Abu Yahya al-Qayrawani, hóf skothríð á baðströnd í bænum Sousse fyrr í dag.

Í yfirlýsingu sem samtökin birtu á Twitter í kvöld lýsa þau yfir ábyrgð á hryðjuverkaárásinni og segja að hún hafi beinst að óvinum samtakanna.

Meirihluti hinna látnu eru breskir ríkisborgarar, að sögn Habib Essid, forsætisráðherra Túnis. Einnig voru Þjóðverjar og Belgar, svo eitthvað sé nefnt, á meðal hinna látnu. Svæðið er vinsæll ferðamannastaður.

Árásamaðurinn er sagður hafa falið Kalashni­kov-hríðskotariff­il und­ir sól­hlíf á strönd­inni áður en hann tók hann upp og hóf skot­hríð.

Maður­inn var skot­inn til bana af ör­ygg­is­sveit­ar­manni. Talið er að tveir menn til viðbót­ar tengist árás­inni, ann­ar þeirra hef­ur verið hand­tek­inn en hinn er á flótta, að sögn tals­manns inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins í Tún­is.

Fyrr á árinu, í marsmánuði, stóðu hryðjuverkasamtökin fyrir annarri árás í Túnis. Þá var skotmarkið Bardo-safnið, en 22 manns féllu í árásinni.

Rót­tæk­ir íslam­ist­ar hafa sótt í sig veðrið síðastliðin ár í land­inu, sér í lagi eft­ir að einræðisherran­um Zine al-Abidine Ben Ali var steypt af stóli í bylt­ingu árið 2011.

Frétt­ir mbl.is:

Um sextíu drepnir í þremur hryðjuverkum

Fimm Bret­ar féllu í Tún­is

Tala lát­inna í Tún­is hækk­ar

Með hríðskotariff­il und­ir sól­hlíf

Blóðbað á baðströnd

Að minnsta kosti 27 látn­ir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert