Samkomulag byggt á sandi

"Hér hvílir Syriza, flokkurinn sem ég studdi einu sinni," sést hér ritað á gangstétt fyrir framan þinghúsið í Aþenu. AFP

Það er allt á suðupunkti í Aþenu og víðar í Evrópu. Mótmælendur hafa safnast saman fyrir utan þinghúsið þar sem samkomulag við lánardrottna er rætt af þingmönnum. Forseti þingsins hvetur þingmenn til að standa saman og hafna samkomulagi sem virðist byggt á sandi samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fjölmargir opinberir starfsmenn eru meðal mótmælenda en þeir eru í sólarhringsverkfalli til þess að mótmæla áformum þeim sem felast í samkomulaginu um niðurskurð, skattahækkanir og breytingar á lífeyrisréttindum. 

Aðstoðarráðherra segir af sér

Nú hefur aðstoðarfjármálaráðherra landsins, Nadia Valavani, sagt af sér en hún segist ekki geta sætt við þau skilyrði sem sett eru í samkomulaginu.

Í hádeginu var síðan greint frá afsögn annars aðstoðarfjármálaráðherra, Manos Manousakis.

<blockquote class="twitter-tweet">

Η επιστολή παραίτησης μου απο τη θέση του Γενικού Γραμματέα Υπουργείου Οικονομίας: <a href="http://t.co/tQTjXiAhhX">pic.twitter.com/tQTjXiAhhX</a>

— Manos Manousakis (@ManousakisManos) <a href="https://twitter.com/ManousakisManos/status/621249449344548864">July 15, 2015</a></blockquote><script async="" charset="utf-8" src="//platform.twitter.com/widgets.js"></script><div id="embedded-remove"> </div>

Á sama tíma er tekist á um það í höfuðstöðvum Evrópusambandsins hvernig standa eigi að fjármögnun brúarláns vegna lánsins til Grikkja en samkomulagið gerir ráð fyrir að lánið verði veitt á þremur árum. Framkvæmdastjórn ESB hefur nú formlega óskað eftir því að fjármálastöðugleikasjóður ESB, European Financial Stability Mechanism (EFSM), veiti sjö milljarða evra brúarlán til Grikkja og að lánið verði til þriggja mánaða. Nokkur ríki ESB, þar á meðal Bretar, eru ósáttir við þetta enda fékk forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, það samþykkt árið 2011 að EFSM sjóðurinn yrði ekki nýttur í björgunarpakka til ríkja á evrusvæðinu. Cameron tekur undir með AGS hvað varðar afskriftir af skuldum og segir að það sé nauðsynlegt. 

Cameron segir að það komi ekki til greina að Bretar taki þátt í lánapakkanum til handa Grikkjum. Þetta sé alfarið mál evrusvæðisins.

„Þingið ætti ekki að samþykkja þessa fjárkúgun“

Fastlega má gera ráð fyrir því að harkalega verið tekist á um samkomulag sem grísk stjórnvöld gerðu við evruríkin um björgunarpakka til þriggja ára á gríska þinginu í dag. Atkvæði verða væntanlega greidd um miðnætti en óvíst er hvort samkomulagið verður samþykkt því þingmenn stærsta flokksins, Syriza, eru margir andsnúnir því. Þeirra á meðal er forseti þingsins, Zoe Konstantopoulou. 

Hún segir að með fjárkúgunum sem sé stýrt af forsætisráðherra Grikklands Alexis Tsipras, sé verið að reyna að fá ríkisstjórnina og þingið til þess að samþykkja stefnu sem forsætisráðherra, sem hún segist bera mikla virðingu fyrir, er sjálfur andsnúinn. „Þingið ætti ekki að samþykkja þessa fjárkúgun,“ sagði hún á þingfundi í dag.

Tsipras, viðurkenndi í gærkvöldi að hafa skrifað undir samkomulag sem hann hafi ekki trú á. Hann segir óvíst hvenær hægt verði að opna banka landsins á nýjan leik en þeir hafa ekki verið opnir í á þriðju viku. Tsipras telur að þeir verði jafnvel lokaðir þar til búið verði að ganga frá björgunarpakkanum og það geti tekið vikur.

Í gærkvöldi neyddist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) að birta síðustu greiningu sína á fjárhagsstöðu gríska ríkisins eftir að skýrslunni var lekið til Reuters fréttastofunnar.

Yfir 200% af VLF

Skýrslan eykur ekki bjartsýni meðal fólks og bendir til þess að Grikkland þurfi miklu meiri aðstoð að halda en fellst í nýja neyðarláninu. Ekki sé hægt að komast hjá því að afskrifa hluta af skuldum gríska ríkisins, að mati AGS. Evrópusambandið verður að fara að skoða gaumgæfilega afskriftir af skuldum Grikkja en það er eitthvað sem Þjóðverjar segja að sé ekki heimilt samkvæmt samkomulaginu sem liggur á baki myntbandalaginu. Ekki nóg með það heldur þurfi ríki Evrópu í hópi lánardrottna Grikklands að styðja fjárhagslega við fjárlög Grikkja árlega.

Skuldir gríska ríkisins munu fara yfir 200% af vergri landsframleiðslu á næstu tveimur árum en áður hafði verið rætt um 177%.

AGS hefur ekki trú á því að Grikkjum muni takast að ná metnaðarfullum markmiðum um afgang á fjárlögum. „Fáum ríkjum hefur tekist að ná því,“ segir meðal annars í skýrslunni og þykir sérfræðingum AGS afar ólíklegt að hagvaxtarspár nái fram að ganga.

Það að bankar landsins hafi verið lokaðir í tvær vikur og fjármagnshöft sett á hefur sett allt á annan endann í efnahagslífinu. Allt að 25 milljarða evra þarf til þess að endurfjármagna bankana, segir í skýrslu AGS.

Eru flokksmenn Syriza lygarar?

Vefurinn Politico Europe er einn þeirra fjölmörgu sem hafa fjallað um málefni Grikklands undanfarið. Þar kemur fram að Jeroen Dijs­sel­bloem, leiðtogi Evr­ópuráðsins, hafi verið ansi nálægt því að segja flokksmenn Syriza (stjórnmálaflokk Tsipras forsætisráðherra) lygara í hollenska sjónvarpinu.

Hann sagði að stærsti stjórnmálaflokkur landsins hafi ekki komið heiðarlega fram við almenning í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Eins bendir Politico á að fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble, og Angela Merkel kanslari hafi í fyrsta skipti opinberlega lýst yfir andstæðri skoðun. Schäuble segir að margir Þjóðverjar vilji frekar að Grikkir yfirgefi evrusvæðið en nýjan lánasamning við þá.

Schäuble hefur verið fylgjandi því að Grikkir færu út úr evrusamstarfinu í nokkur ár og hann virðist enn á þeirri skoðun. 

Samkvæmt frétt Financial Times þá hefur framkvæmdastjórn ESB formlega lagt fram beiðni um að sjóður ESB, European Financial Stability Mechanism, verði nýttur til þess að koma í veg fyrir greiðslufall gríska ríkisins. 

Ríkisstjórn Bretlands er andvíg því að sjóðurinn verði nýttur til verksins, líkt og hér kom fram að framan,  en FT segir að það sé óvíst hvort Bretar geti náð nægum stuðningi annarra ríkja til þess að koma í veg fyrir það. Sjóðurinn á 11,5 milljarða evra á lausu  en Grikkir þurfa 7 milljarða evra fyrir mánudag til þess að greiða af láni hjá seðlabanka Evrópu og AGS.

Euclid Taskalotos, fjármálaráðherra Grikklands, segir að þrátt fyrir að þær aðgerðir sem lagðar séu til í samkomulaginu séu afturhvarf þá þýði samkomulagið það að Grikkir verði áfram á evrusvæðinu og fjárfestingar geti hafist á nýjan leik í landinu.

Skýrsla AGS er væntanlega eins og blaut tuska í andlit margra Grikkja  því staða ríkisins er mun verri en teiknað er upp í nýja samningnum.  AGS lagði skýrsluna fram áður en gengið var frá samkomulaginu á mánudagsmorgun þannig að það er ljóst að ráðamenn í Evrópu vissu hversu staðan væri alvarleg áður en þeir gengu til samninga.

Hverjir eru til í að vera með?

Samkvæmt BBC er jafnvel óvíst hvort AGS muni taka þátt í björgunaraðgerðunum en samkomulagið felur í sér að ríkisstjórnir á evrusvæðinu leggja fram milli 40-50 milljarða evra, AGS leggur til háar fjárhæðir og afgangurinn kemur frá sölu ríkiseigna í Grikklandi og fjármálamörkuðum. Um það bil 10% af skuldum gríska ríkisins voru fengnar að láni hjá AGS. Grikkir hafa ekki getað staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðnum í tvígang og er fyrsta ESB ríkið sem ekki tekst að gera það.

Hvers vegna í ósköpunum ætti gríska þingið að greiða atkvæði með sársaukafullum efnahagsumbótum sem ekki einu sinni AGS hefur trú á?, spyr Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC.

Preston segir að Tsipras hafi, gegn eigin sannfæringu, samþykkt að ganga að afarkostum evruríkjanna, einkum Þjóðverja, og að AGS verði meðal þátttakenda í björgunarpakkanum. Að öðrum kosti yrði landið rekið úr evrusamstarfinu og þjóðargjaldþrot myndi blasa við. En nú blasir við sá raunveruleiki að AGS hafi ekki hug á því að taka þátt í frekari lánveitingum til Grikkja nema Þjóðverjar og aðrir lánardrottnar taki á sig miklar afskriftir af lánum sem Grikkir hafa fengið á undanförnum árum.

Bætt inn klukkan 12:23

Martin Jäger, talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins, segir að það sé vel mögulegt að lengja lánatímann í 30 ár svo lengi sem það hefur ekki veruleg áhrif á virði skuldanna. Hann segir að þetta sé eitthvað sem megi skoða en það verði að vera ljóst að það er engin lausn ef það þýðir að virði lánanna rýrnar umtalsvert. Það væri þá ekkert annað en afskriftir skulda bakdyramegin.

Jäger staðfestir við Guardian að leiðtogar ESB hafi þekkt innihald skýrslu AGS um helgina þegar þeir sátu á rökstólum um framtíð Grikklands. Í skýrslu AGS er meðal annars lagt til að lánin verði framlengd í 30 ár.

Guardian

BBC

Telegraph

Politico

Berlingske

Reuters

Skýrsla AGS

Fjölmargir taka þátt í mótmælum fyrir utan þinghúsið í Aþenu
Fjölmargir taka þátt í mótmælum fyrir utan þinghúsið í Aþenu AFP
AFP
Fjármálaráðherra Grikklands Euclid Tsakalotos
Fjármálaráðherra Grikklands Euclid Tsakalotos AFP
AFP
Lokað þar sem starfsfólk er í verkfalli
Lokað þar sem starfsfólk er í verkfalli AFP
Forsætisráðherra Grikklands Alexis Tsipras
Forsætisráðherra Grikklands Alexis Tsipras AFP
Það eru ófáir fjölmiðlar sem fylgjast grannt með gangi mála …
Það eru ófáir fjölmiðlar sem fylgjast grannt með gangi mála í Aþenu AFP
Forstjóri AGS, Christine Lagarde
Forstjóri AGS, Christine Lagarde AFP
Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble
Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert