Helmingur foreldra fórnarlambanna enn frá vinnu

Þátttakendur í minningarathöfn í Útey 2012 fallast í faðma.
Þátttakendur í minningarathöfn í Útey 2012 fallast í faðma. AFP

Meira en helmingur foreldra ungra fórnarlamba hryðjuverkamannsins Anders Breivik glíma enn við of alvarlegar andlegar afleiðingar árásarinnar til að snúa aftur til vinnu.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem birt var í dag þegar fjögur ár eru liðin frá fjöldamorðunum í Útey.

Rannsóknin tók til 86 foreldra hinna 69 sem létust þann 22. júlí 2011 í eynni og í leiddi hún í ljós að tveir þriðjuhlutar hópsins þjáðust af kvillum tengdum áfallastreituröskun, þar á meðal einbeitingar- minnis- og svefnskorti.

51 prósent foreldranna var enn í leyfi frá vinnu, ýmist að hluta til eða að öllu leiti.

Kari Dyregrov, prófessor við Neyðarsálfræðistofnunina í Bergen og einn höfunda rannsóknarinnar segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart.

„Þetta eru foreldrar sem misstu börnin sín, sumir þeirra voru jafnvel í sambandi við þau á meðan að árásarmaðurinn ráfaði um eyjuna,“ sagði hann við fréttastofu AFP.

Þriðjungur mæðranna og feðranna sem rannsóknin tók til áttu í samskiptum við börnin sín símleiðis eða með smáskilaboðum á meðan Breivik gekk um eyjuna og skaut allt sem fyrir varð.

Tíu mæður og níu feður höfðu talað við börnin sín í símann rétt áður en þau voru myrt.

„Það er ótrúlega þung byrði að bera, sérstaklega þar sem þau hafa mátt þola fjölmiðlaathygli daglega,“ sagði Dyregrov.

„Á einu ári voru árásirnar, réttarhöldin, rannsóknarnefndirnar...sem lét þau fresta sorginni. Hún þurfti að bíða. Þau höfðu ekki næga orku til að einbeita sér.“

Stór hluti foreldra fórnarlambanna, 89 prósent mæðranna og 85 prósent feðranna, sátu réttarhöldin yfir Breivik árið 2012 þar sem hann var dæmdur til 21 árs fangelsisvistar sem gæti verið framlengd um ókomna tíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert