Tíu fiskimenn skornir á háls

Liðsmenn Boko Haram birtast reglulega á myndbandi.
Liðsmenn Boko Haram birtast reglulega á myndbandi. AFP

Vígamenn íslömsku hryðjuverkasamtakanna Boko Haram skáru tíu fiskimenn á háls nærri vatninu Chad í norðausturhluta Nígeríu. Hinir látnu bjuggu allir í þremur þorpum sem staðsett eru við vatnið og vígamenn gerðu árás á í morgun.

„Hópur manna frá Boko Haram gerði árás á þorp sem standa við strönd vatnsins Chad. Þeir myrtu þar tíu manns sem allir voru fiskimenn,“ segir Abúbakar Gamandí, talsmaður félags fiskimanna á svæðinu, í samtali við fréttaveitu AFP.

Sjónarvottur að ódæðinu segir vígamenn hafa mætt í þorpin um klukkan 16 að staðartíma og gengið rakleiðis til verks. Þeir hafi á skömmum tíma fundið fórnarlömb sín, gengið upp að þeim og skorið á háls. Alls létust tíu manns, allir fiskimenn.

Þorpin sem um ræðir nefnast Bundaram, þar sem fjórir voru myrtir, Fishdam, þar sem vígamenn drápu tvo, og Kwatar Mali, en þar létust einnig fjórir.

Ástæða þess að vígamennirnir beittu ekki skotvopnum sínum er talin vera sú að þeir vildu ekki vekja athygli hermanna á árásinni. Voru hnífar því notaðir við ódæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert