Elska konur sem skína í nóttinni

Fatou er aðeins 26 ára gömul en mörg lög af húðlýsingarkremi hafa gert húð hennar marmaralita. Hún er kölluð „salamandran“ en ekkert getur stöðvað hárgreiðslukonuna frá Abidjan í að nota lýsingarefni á húð sína. „Ég elska ljósa húð,“ segir hún. „Ég get ekki hætt.“

Margar konur á Fílabeinsströndinni, og vaxandi fjöldi karla, nota krem og önnur efni með hættulegum innihaldsefnum til að lýsa húð sína, jafnvel þótt að stjórnvöld hafi gripið inn í og reynt að koma í veg fyrir notkun þeirra.

Í apríl sl. bönnuðu yfirvöld notkun lýsingarkrema af heilbrigðisástæðum, en kremin geta valdið útbrotum og krabbameini auk þess sem frjálsleg notkun þeirra getur leitt til háþrýstings og sykursýki að sögn sérfræðinga.

Meðal þeirra vara sem hafa verið bannaðar eru krem sem innihalda kvikasilfur, ákveðna stera, A-vítamín og mikið magn hýdrókínons, en það er m.a. notað í framköllunarvökva og sem bleikiefni við sýnameðferð.

Hættur þær sem felast í notkun lýsingarefnanna virðast þó ekki hafa dregið úr áhuga Fílabeinsstrendinga á ljósari húð.

„Þær færa birtu og ljóma inn í svefnherbergið“

Engin tölfræði er til um notkun lýsingarefna á Fílabeinsströndinni en svokallaðir „tchatchos“, þ.e. þeir sem hafa lýst húð sína, eru víða í Abidjan. Þeir eru þekkjanlegir á hnúunum og olnbogunum, sem halda jafnan dökkum lit.

Þrátt fyrir bannið eru lýsingarefnin enn til sölu í verslunum borgarinnar, en verslunarmenn vita sem er að neytendur munu halda áfram að nota þau þrátt fyrir áhættuna.

„Við vitum að lýsingarvörurnar okkar eru hættulegar,“ segir framkvæmdastjóri snyrtivöruframleiðanda. Hann bætir því hins vegar við að ef vörurnar væru teknar af markaði myndi fólk freistast til að búa til sín eigin efni, sem væri verra.

„Við að minnsta kosti þekkjum samsetninguna,“ segir hann um vörur fyrirtækisins.

Sumar konur segja að það sé þrýstingur frá samfélaginnu, sérstaklega frá körlum, sem neyði þær til að lýsa húð sína.

„Það eru karlar sem ýta konum útí það að lýsa húð sína,“ segir Marie-Grace Amani, sem hefur lýst húð sína sl. fjögur ár. Undir þetta tekur heilbrigðisráðherrann Raymonde Goudou Coffie.

Karlar á Fílabeinsströndinni „elska konur sem skína í nóttinni,“ segir hún í samtali við AFP. „Þær færa birtu og ljóma inn í svefnherbergið.“

Innantómar aðgerðir

Þrátt fyrir að þrír mánuðir hafi liðið frá því að bannið gegn lýsingarefnunum tók gildi eru snyrtistofur enn ófeimnar við að auglýsa vörurnar. Þær telja m.a. sápur sem bera heiti á borð við „Ljómi og Hvítt“ og „Líkams Hvítt“ og engum dylst til hvers þær eru ætlaðar.

„Eftir að við höfum vakið fólk til meðvitundar munum við stíga næsta skref sem er að fjarlægja vörurnar af markaði,“ segir Coffie. Sérstök nefnd hefur verið sett á laggirnar til að fylgja eftir banninu en helsti óvinurinn eru menningarlegir fegurðarstaðlar.

Fyrirsætur með lýsta húð prýða auglýsingaskilti út um alla Abidjan og prófessorinn og húðlæknirinn Elidje Ekra segir að jafnvel þótt bannið sé af hinum góða, sé það „hol skel“.

„Við sjáum konur í sjónvarpinu sem nota hinar ætandi vörur. Virða þeir bannið sem eiga að framfylgja því?“

Sérfræðingar segja að svo lengi sem fólk hafi vilja til að lýsa húð sína muni það finna leiðir til þess.

„Við segjum fólki að það sé ekki gott fyrir heilsu þess, en ef þeir fá eitthvað gott út úr því... Við getum ekki bannað fólki að gera það sem það vill,“ segir Paul Aristide Kadia, sem verslar með lýsingarefnin.

Húðlýsing tíðkast víðar en á Fílabeinsströndinni og er útbreidd í Afríku, sem og sumstaðar í Asíu. Í Senegal var efnt til mikilla mótmæla gegn húðlýsingu árið 2013, en þar gengu menn ekki svo langt að banna vörurnar.

Þessi kona notar húðlýsingarefni. Bann gegn efnunum virðist ekki hafa …
Þessi kona notar húðlýsingarefni. Bann gegn efnunum virðist ekki hafa haft tilætluð áhrif, a.m.k. ekki enn sem komið er. AFP
Mikið úrval lýsingarefna er á markaði.
Mikið úrval lýsingarefna er á markaði. AFP
Konur veigra sér ekki við því að nota lýsingarefnin jafnvel …
Konur veigra sér ekki við því að nota lýsingarefnin jafnvel þótt þau geti valdið krabbameini, háþrýstingi og sykursýki. AFP
Tvær tegundir lýsingarefna.
Tvær tegundir lýsingarefna. AFP
Efnin geta valdið því að húðin verður blettótt.
Efnin geta valdið því að húðin verður blettótt. AFP
Yfirvöld segja að næsta skref muni felast í því að …
Yfirvöld segja að næsta skref muni felast í því að fjarlægja vörurnar af markaði. AFP
Rótgrónir fegurðarstaðlar gera yfirvöldum erfitt fyrir í baráttunni.
Rótgrónir fegurðarstaðlar gera yfirvöldum erfitt fyrir í baráttunni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert