Fundu lík allt að 50 flóttamanna

Flóttamenn bíða fyrir utan hælisleitendamiðstöð í Austurríki í síðasta mánuði.
Flóttamenn bíða fyrir utan hælisleitendamiðstöð í Austurríki í síðasta mánuði. AFP

Lík allt að fimmtíu flóttamanna fundust í kæliklefa vörubifreiðar í Austurríki í dag. Líkin fundust þegar að bifreiðinni var lagt við bensínstöð í um 50 kílómetra fjarlægð frá Vín og 25 kílómetra fjarlægð frá landamærum Austurríkis og Ungverjalands.

Sky News segir frá þessu.

Talið er að fólkið hafi fests í klefanum og kafnað en að sögn lögreglu hefur það ekki verið staðfest. Starfsfólk bensínsstöðvarinnar tók eftir vörubílnum og þegar honum hafði verið lagt í einhvern tíma við stöðina var kallað á lögreglu. Eitt vitni greindi frá því að vökvi hafi lekið út úr vörubílnum. Talið er að ökumaður vörubílsins hafi flúið og hans er nú leitað af lögreglu.

Á blaðamannafundi í Eisenstadt, sagði innanríkisráðherra Austurríkis, Johanna Mikl-Leitner að líkfundurinn sýndi þær hræðilegu aðferðir sem smyglarar innan mafíunnar notuðu í Austurríki.

„Í dag er dimmur dagur,“ sagði hún og hét því að smyglurum í landinu yrði ekki sýnd miskunn. „Þetta fólk á heima í fangelsi. Þessir smyglarar verða að vita að þeir eru ekki öryggir í Austurríki.“ Að sögn Mikl-Leitner voru um 20-50 lík í bílnum. 

Mynd af vörubílnum birtist á vef austurríska dagblaðinu Krone. Þar mátti sjá merkingar á slóvakísku á hlið bílsins.

Aðeins eru nokkrir dagar síðan að þrír aðrir bílar voru stöðvaðir í Austurríki sem innihéldu alls 34 flóttamenn. Hópnum var bjargað en fólkið kvartaði yfir því að erfitt hafi verið fyrir þau að anda í vörugeymslum bílanna. Í að minnsta kosti einum bílnum neitaði bílstjórinn að stöðva bifreiðina á löngu ferðalagi frá Serbíu til Austurríkis.

Mörg þúsund flóttamenn koma til Ungverjalands á hverjum degi í leit að betra lífi innan aðildarríkja Evrópusambandsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert