Lögreglan lét sig hverfa

Beðið eftir því að komast um borð í lestina til …
Beðið eftir því að komast um borð í lestina til Þýskalands AFP

„Ég trúi því ekki að ég sé loksins á leið til Þýskalands,“ segir Ehab Yassin, 18 ára eðlisfræðinemi, einn af hundruðum flóttamanna frá Sýrlandi sem hafa reynt að komast til Þýskalands frá Ungverjalandi. Þúsundir flóttamanna fóru frá Ungverjalandi til fyrirheitna landsins í gær.

Yassin var í röð til að komast um borð í lestinni sem fór frá Búdapest klukkan 21:10 á leið til München. Svo virðist sem ungverska lögreglan hafi gefist upp á því að stöðva flótta- og förufólk sem hefur reynt að komast með lestum frá landinu síðan um miðjan ágúst. Hefur engu breytt þó fólkið hafi verið með gilda farmiða, enginn fékk að fara. En í gær var eins og lögreglan hefði látið sig hverfa. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vín komu 3600 flóttamenn til borgarinnar í gær og hafa þeir aldrei verið fleiri á einum degi.

Hamborg draumastaðurinn - þar sést til sjávar

Yassin, sem stóð taugaóstyrkur í röðinni á Keleti lestarstöðinni, segir að stefna sé tekin á Hamborg en það skipti kannski ekki öllu máli. Hamborg sé við hafið eins og heimabær hans, Latakia sem er á vesturströnd Sýrlands. 

Fyrir flóttamenn frá Sýrlandi og fleiri löndum þá hafa brautarstöðvarnar í Búdapest verið síðasta hindrunin á erfiðu ferðalagi til norðurhluta Evrópu. Ungverjaland, sem er í ESB, og innan Schengen landamærasamstarfsins, hefur hingað til neitað að hleypa fólki sem ekki er með vegabréfsáritun í gegnum landið til annarra ríkja ESB. Segja yfirvöld í Ungverjalandi það ekki heimilt samkvæmt sáttmála ESB.

Ekki með flutningabifreið

Á sama tíma hafa um tvö þúsund flóttamenn komið á hverjum degi í ágúst inn í Ungverjaland og beðið þar eftir því að geta haldið áfram leiðar sinnar. Flestir þeirra hafa haldið til fyrir utan tvær helstu brautarstöðvarnar í Búdapest. 

„Ég mun bíða hér eftir lest eins lengi og ég get,“ segir pakistanskur verslunareigandi sem segir fréttamanni að hann hafi yfirgefið heimalandið vegna ofsókna talibana. Hann hafi fengið nóg af því að þeir ræni verslun hans í hverri einustu viku.

Hann var ákveðinn í því að kaupa sér ekki far með smyglurum á flutningabílum og vísaði til flóttamannanna sem létust í slíkum bíl í síðustu viku. 

„Þýskaland já! Ungverjaland nei! Leyfið okkur að fara!,“ mátti heyra fólkið söngla fyrir utan Keleti brautarstöðina um helgina. Vísaði fólkið til þess að þýsk stjórnvöld hafa rýmkað reglur sem gilda um komur flóttamanna. 

„Fyrst vilja þeir okkur ekki inn í landið og síðan vilja þeir ekki hleypa okkur í burtu,“ segir einn Sýrlendinganna við fréttamann AFP og bendir á gaddavírsgirðinguna sem Ungverjar hafa sett upp á landamærum sínum við Serbíu til þess að koma í veg fyrir að flóttamennirnir komist inn í landið.

Á eftir að sakna þeirra

En í gærmorgun hvarf lögreglan af vettvangi og flóttamönnunum var leyft að fara um borð á í lestarvagnana á leið vestur. 

„Ég get ekki leyft lestinni að fara - hún er allt of full,“ sagði áhyggjufullur starfsmaður á brautarstöðinni í Búdapest - hönd hans titrar þegar hann talar við lögregluna í símann á brautarpallinum við hlið lestarinnar sem er á leið til Vínar. Nokkrum mínútum síðar blæs hann í flautu sína og lestin fer hægt af stað. Næsta stopp - Austurríki.

Mikil ringulreið ríkti á brautarstöðinni í gærkvöldi þar sem fólk nánast tróðst undir við að komast um borð í lestina sem átti að fara klukkan 21:10. Börn liðu út af og hjálparstarfsmaður biður fólk um að stíga þrjú skref aftur á bak, hann er með grátstafinn í kverkunum. „Engar fleiri lestir fyrr en í fyrramálið kallar hann þegar lestarvagnarnir eru orðnir troðfullir. Enn ein nóttin bíður flóttamannanna við lestarstöðina. 

„Ég verð að viðurkenna að ég verð dapur við að sjá þá fara þar sem ég er farinn að þekkja þá svo vel,“ segir Baba Mujhse, Ungverji af egypskum uppruna sem hefur verið sjálfboðaliði í hjálparstarfi á Keleti brautarstöðinni undanfarna mánuði. Hann talar reiprennandi arabísku sem hefur komið sér vel í starfinu.

 „En um leið er ég glaður, nú eiga þeir möguleika á að eignast sómasamlegt líf,“ bætir hann við er hann sér fólkið sem hann hefur veitt aðstoð loks ná takmarki sínu, að komast til Þýskalands þar sem það vonast eftir því að geta komið sér fyrir án skugga stríðsógnar.

Keleti lestarstöðin í gær
Keleti lestarstöðin í gær AFP
AFP
AFP
AFP
Það eru allir vagnar troðfullir af flóttamönnum á leið frá …
Það eru allir vagnar troðfullir af flóttamönnum á leið frá Ungverjalandi til Þýskalands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert