Vill nú aðeins snúa aftur til Kobane

Kistur látnu undirbúnar fyrir flutning.
Kistur látnu undirbúnar fyrir flutning. AFP

„Ég hélt í hönd eiginkonu minnar. En börnin runnu úr greipum mínum. Við reyndum að hanga á litla bátnum, en loftið hljóp úr honum. Það var myrkur og allir öskruðu.“ Þannig lýsir Abdullah Kurdi reynslu sinni af ferðinni yfir Miðjarðarhafið á miðvikudag, þegar tólf sýrlenskir flóttamenn drukknuðu á tyrknesku hafsvæði.

Meðal látnu voru eiginkona Kurdi og synir hans Ghaleb fjögurra ára og Aylan þriggja ára, en myndir af líki Aylan, sem skolaði að landi í strandbænum Bodrum í Tyrklandi, hafa fangað heimsbyggðina.

Fjölskyldan, sem er sögð hafa gengið undir eftirnafninu Shenu í Sýrlandi, freistaði þess að ná ströndum grísku eyjarinnar Kos þegar harmleikurinn átti sér stað. Að sögn fjölskylduföðursins hóf bátur þeirra að leka skömmu eftir að þau lögðu af stað um miðja nótt.

Eftir að báturinn hvolfdi reyndi Kurdi að halda í konu sína og syni, á sama tíma og hann hélt dauðahaldi í bátinn. Hann missti hins vegar takið og hafið bar þau á brott.

„Ég reyndi að synda að landi með aðstoð ljósanna en gat ekki fundið konuna mína og börnin þegar ég náði þangað. Ég hélt að þau hefðu hræðst og hlaupið á burt,“ segir hann. „Þegar ég fann þau ekki á mótstaðnum okkar í borginni, þar sem við hittumst venjulega, fór ég á sjúkrahúsið og fékk slæmu fréttirnar.“

Kurdi sagði að áfangastaður fjölskyldunnar hefði verið Kanada, en hún flúði liðsmenn Ríkis íslam í borginni Kobane í fyrra og hefur síðan dvalið í Tyrklandi. Nú vill Kurdi hins vegar snúa aftur til að jarða fjölskyldu sína í Kobane.

AFP hafði eftir heimildarmanni að flogið yrði með líkin til Istanbul í dag, þaðan til landamærabæjarins Suruc og áfram til Kobane.

Haft var eftir Kurdi að fjölskyldan hefði tvisvar greitt smyglurum fyrir að koma þeim til Kos; í fyrra skiptið voru þau stöðvuð af strandgæslunni og í seinna skiptið svikin af smyglurunum. Vegna fyrri reynslu ákváðu þau að leggja yfir hafið upp á eigin spýtur.

Abdullah Kurdi bíður við líkhúsið í Mugla.
Abdullah Kurdi bíður við líkhúsið í Mugla. AFP
Myndirnar af líki Aylan litla hafa farið eins og eldur …
Myndirnar af líki Aylan litla hafa farið eins og eldur í sinu og vakið hörð viðbrögð um allan heim. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert