Mikill minnihluti frá Sýrlandi

Hælisleitendur á landamærum Króatíu og Ungverjalands.
Hælisleitendur á landamærum Króatíu og Ungverjalands. AFP

Tölur frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, benda til þess að einungis 21% hælisleitanda sem komið hafi til ríkja sambandsins séu frá Sýrlandi. Hin 79% hafi komið frá öðrum ríkjum eins og til að mynda Afganistan. Tölurnar miða við annan ársfjórðung þessa árs eða tímabilið frá apríl til júní. Á þeim tíma komu um 213 þúsund hælisleitendur til ríkja Evrópusambandsins en samkvæmt tölum Eurostat voru aðeins um 44 þúsund þeirra frá Sýrlandi.

Stærsti hópurinn fyrir utan Sýrlendinga kom frá Afganistan eða um 27 þúsund manns. Næst stærsti hópurinn voru Albanir eða um 17.700 manns. Þá komu Írakar en þeir voru um 13.900. Fram kemur meðal annars á bandaríska fréttavefnum International Business Times að tölur Eurostat komi ekki heim og saman við áberandi fréttaflutning þess efnis að flestir hælisleitendur sem komið hafi til Evrópu undanfarin misseri séu að flýja átökin í Sýrlandi.

Segir tölurnar afhjúpa rangfærslur

Fyrir helgi var haft eftir Fabrice Leggeri, yfirmanni landamærastofnun Evrópusambandsins, Frontex, í frétt þýska dagblaðsins Die Welt að margir hælisleitendur yrðu sér úti um fölsuð sýrlensk vegabréf í Tyrklandi. „Margt fólk verður sér úti um fölsuð sýrlensk vegabréf í Tyrklandi vegna þess að það veit að það auðveldar þeim að fá hæli innan Evrópusambandsins.“ Frontex hafi fyrr í þessum mánuði hvatt tyrknesk yfirvöld til að taka á málinu.

Haft er eftir David Davies, þingmanni Íhaldsflokksins á breska þinginu, í frétt International Business Times að tölur Eurostat afhjúpi rangfærslur sem sumir hafi haldið fram þess efnis að flestir hælisleitendur sem komi til Evrópu séu frá Sýrlandi. „Flestir sem flýja stríðið [í Sýrlandi] fara í flóttamannabúðir í Líbanon og Jórdaníu. Margir þeirra sem hafa ákveðið að stofna lífi sínu í hættu til þess að koma til Evrópu hafa gert það af efnahagslegum ástæðum.“

Samflokksmaður Davies, þingmaðurinn Bill Cash, tekur í sama streng. „Það kemur illa við mann að sjá þessar tölur. Málflutningurinn hefur verið á þá leið að þetta séu allt flóttamenn frá Sýrlandi en þetta bætist við umfangsmikil sönnunargögn þess efnis að stór hluti þeirra hafi flúið land af efnahagslegum ástæðum og sé að leita eftir betra lífi.“

Flóttamannavandinn líka í Evrópu

Hins vegar er haft eftir Yvette Cooper, þingmanni breska Verkamannaflokksins og talsmanni flokksins í flóttamannamálum, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Express að ljóst sé að aðferðafræði breskra stjórnvalda sé ekki að skila árangri. Vísar hún þar til ákvörðunar ríkisstjórnar Davids Cameron að taka aðeins við fólki úr flóttamannabúðum í nágrannaríkjum Sýrlands en ekki þeim sem þegar eru komnir til Evrópu.

„Með því er horft framhjá því að flóttamannavandinn er einnig í Evrópu og þýðir að Bretland hefur ekkert vægi þegar kemur að því að fá fleiri ríki til að taka þátt í að leysa hann,“ segir Cooper. Talsmaður breska innanríkisráðuneytisins segir hins vegar að ekki væri ásættanlegt að þeir sem ekki væru raunverulegir flóttamenn litu á hælisumsókn í Bretlandi sem auðveldari leið til þess að fá dvalarleyfi í landinu.

„Við þurfum fyrirkomulag sem getur skilið frá umsóknir sem ekki eiga rétt á sér svo við getum afgreitt þá sem raunverulega þurfa á hæli að halda með fljótari og árangursríkari hætti.“

Skýrsla Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert