Tóku hund af heimilislausum manni

Úr myndbandinu. Heimilislausi maðurinn reynir að ná hundinum frá fólkinu.
Úr myndbandinu. Heimilislausi maðurinn reynir að ná hundinum frá fólkinu. Skjáskot af Youtube

Frönsk dýraverndunarsamtök hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að taka hvolp af heimilislausum manni í miðborg Parísar um helgina en myndband sem sýnir þrjá aðgerðarsinna rífa hundinn af manninum hefur vakið hörð viðbrögð. Á myndbandinu má sjá mennina ýta heimilislausa manninum í burtu er hann reynir að stöðva þá í að taka af honum hundinn. Heyra má manninn gráta og hundinn væla.

Hópur fólks fylgdist með og má heyra eina konu kalla „Þið hafið ekki rétt til þess að gera þetta!“

Nghi Le Duc, sem tók myndbandið upp um helgina sagði að mennirnir hafi á ofbeldisfullan hátt og án miskunnar tekið besta vin mannsins frá honum.

En dýraverndunarsamtökin Cause Animale Nord hafa varið gjörðir mannanna þriggja og sagt að heimilislausi maðurinn hafi gefið hvolpinum lyf til þess að halda honum rólegum. Hvolpurinn á að hafa verið með útþanda augasteina og væl hans í myndbandinu hafi „ekki verið eðlilegt“ að sögn Anthony Blanchard, formanns samtakanna í yfirlýsingu.

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að klær hundsins hafi ekki verið klipptar og að hann hafi ekki fengið nauðsynlegar bólusetningar.

„Við vitum hvað þessi dýr eru fólkinu á götunni mikilvæg en við getum ekki samþykkt  nýtingu og misþyrmingu á dýrum fyrir peninga," skrifaði Blanchard.

 „Ef að yfirvöld sæju um þetta þyrftum við þess ekki,“ sagði Blanchard jafnframt og bætti við að honum hefði borist dauðahótanir síðan að myndbandið var birt á netinu.

Cause Animale Nord hefur síðan þá birt myndir af hvolpinum á Facebook. Hann hefur verið nefndur „Vegan“ og er nú hægt að ættleiða hann fyrir 195 evrur (28.000 íslenskar krónur). Vegan er lýst sem glöðum og gáskafullum hundi.

Tæplega 60.000 manns hafa skrifað undir undirskriftarlista þess efnis að Cause Animale Nord samtökin verði rannsökuð. Þar kemur m.a. fram að með því að hafa tekið hundinn hafi samtökin tekið hlutverk sitt of langt og þess krafist að það sé sannað að hvolpurinn hafi verið í vímu.

„Hvergi í reglum samtakanna kemur fram að þau hafi rétt til þess að fjarlægja, án viðvarana, dýr og það sem þau gerðu var að ráðast á heimilislausan mann með ofbeldi til þess að taka af honum gæludýr sitt,“ segir í kröfunni.

Hægt er að sjá myndbandið hér að neðan. Það er ekki fyrir viðkvæma.

Frétt Sky News. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert