Lifir með eftirsjá á degi hverjum

Joyce Mitchell játaði brot sín í júlí.
Joyce Mitchell játaði brot sín í júlí. AFP

Fyrrum fangelsisstarfsmaðurinn Joyce Mitchell grét í réttarsalnum í dag þegar hún var dæmd í fangelsi fyrir að hafa aðstoðað hættulega fanga að sleppa úr fangelsi í New York ríki í sumar. „Ef ég gæti tekið þetta allt til baka myndi ég gera það. Ég get ekki byrjað að útskýra hversu mikið ég sé eftir þessu,“ sagði Mitchell í dag.

Í dag eru tveir mánuðir síðan að Mitchell játaði að hafa aðstoðað fangana, þá David Sweat og Richard Matt að flýja fangelsi í New York ríki í júní. Matt lést á flóttanum en Sweat lifði af. Þeir voru báðir dæmdir morðingjar og voru þeir á flótta í margar vikur.

Samkvæmt frétt ABC var Mitchell dæmd í dag bæði fyrir að hafa aðstoðað mennina og fyrir að hafa smyglað búnaði fyrir þá inn í fangelsið. Fyrir smyglið hlaut Mitchell tveggja til sjö ára dóm en fyrir að aðstoða fangana hlaut hún eins árs fangelsi. Hún verður þar að auki látin greiða sekt upp á 5000 bandaríkja dala (642.000 íslenskar krónur) og þarf einnig að greiða 1000 bandaríkjadali fyrir hverja ákæru.

Við réttarhöldin í dag lýsti dómarinn því hvernig leitin að föngunum hafði áhrif á samfélögin í kringum leitarsvæðið og hvað leitin sjálf kostaði lögregluyfirvöld. Talið er að leitin hafi kostað margar milljónir bandaríkjadali en á tímabili tóku þúsund lögreglumenn þátt í leitinni. Fjölmargar fjölskyldur þurftu jafnframt að yfirgefa heimili sín á meðan leitinni stóð.

Í réttarsalnum mátti sjá Mitchel, sem er 51 árs, þurrka tárin áður en dómurinn var kveðinn upp. „Ég er 51 árs gömul og þetta eru mestu mistök sem ég hef gert á ævi minni. Ég lifi með eftirsjá á hverjum degi og mun alltaf gera það,“ sagði hún við kviðdómara. Hún sagðist jafnframt vera í sálfræðimeðferð í fangelsinu og að hún viðurkenni gjörðir sínar. Hún er enn að reyna að skilja af hverju hún hjálpaði mönnunum.

Verjandi Mitchell, hefur haldið því fram að hún hafi ekki verið ein um að aðstoða mennina. Notuðu þeir verkfæri við flóttann sem Mitchell útvegaði þeim ekki og gefur því auga leið að mati verjandans að einhver annar hafi einnig hjálpað þeim.

Mitchell starfaði sem saumakona í Clinton fangelsinu í Dannemora í New York. Hún var handtekin stuttu eftir að upp komst að Sweat og Matt hefðu flúið. Að sögn yfirvalda útvegaði hún þeim verkfæri og smyglaði þeim inn í klefa þeirra inni í hamborgarakjöti.

Eftir þriggja vikna leit var Matt skotinn til bana af lögreglu nálægt bænum Elephant‘s Head í New York ríki. Síðar var Sweat skotinn og handtekinn nálægt bænum Constable í New York ríki.

Richard Matt og David Sweat.
Richard Matt og David Sweat. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert