Sjö ára grafin með ókunnugum

Þessari konu tókst að komast til eyjunnar Lesbos í Grikklandi …
Þessari konu tókst að komast til eyjunnar Lesbos í Grikklandi á lífi ásamt barni sínu. AFP

Hún liggur á jörðinni klædd í hvít líkklæði. Hún þekkti ekki fólkið sem er við jarðarför hennar og hún mun hér eftir hvíla við hlið ókunnugrar konu. Móðir hennar gæti verið á lífi í Tyrklandi en sjálfboðaliðum og yfirvöldum á eyjunni Lesbos í Grikklandi tókst ekki að finna ættingja hennar.

Mörg þúsund flóttamenn hafa komið að landi á eyjunni síðustu vikur á leið sinni til Evrópu þar sem þeir vonast til að finna betra líf. Litla stúlkan var ein af þeim. Vitað er að hún var sjö ára gömul þegar hún lést og hún lést þann 20. september síðastliðinn á leið sinni yfir Eyjahaf í leit að framtíð.

Tyrknesku strandgæslunni tókst að bjarga tuttugu manns úr hópnum sem hún ferðaðist með. Svo virðist sem tuttugu og fjögurra sé enn saknað.

Búið er að grafa þrjár nýjar grafir, fyrir stúlkuna, tvær konur og óþekktan karlmann. Til að spara pláss verður stúlkan litla grafin með annarri konunni. Gert er ráð fyrir að fólkið sé allt múslimar og því snúa grafirnar að Mekka.

Tvær konur, sjálfboðaliðar frá Ísrael og Palestínu eru viðstaddar jarðarförina og aðstoða við að hífa líkin ofan í grafirnar. „Evrópa ætti að skammast sín fyrir að neyða þetta fólk til að hætta lífum sínum,“ segir annar sjálfboðaliðinn.

Fimm ára gömul stúlka frá Sýrlandi lést degi áður en sjö ára stúlkan. Borin voru kennsl á hana og fjölskylda hennar, flóttamenn í Þýskalandi, munu fá lík hennar til greftrunar. Það er kannski eins gott, kirkjugarðurinn er óðum að fyllast. Fjöldi grafa bera aðeins númer. „Óþekktur, 28. ágúst 2015,“ segir á einni þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert