Boðar hertar aðgerðir og aukið eftirlit

Stefan Lofven boðaði hertar aðgerðir og aukið eftirlit á blaðamannafundi …
Stefan Lofven boðaði hertar aðgerðir og aukið eftirlit á blaðamannafundi í dag. AFP

Stefan Lofven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í dag að líklega hefðu Svíar verið hrekklausir gagnvart mögulegum árásum heimafyrir og tilkynnti að yfirvöld hygðust auka öryggisviðbúnað, m.a. eftirlit með dulkóðuðum samskiptum.

Lofven sagði að ef til vill hefðu Svíar átt erfitt með að horfast í augu við þá staðreynd að það væru, í hinum opna sænska þjóðfélagi, fólk; sænskir ríkisborgarar, sem væru samhuga jíhadistum og hryðjuverkasamtökunum Ríki íslam.

Ráðherrann sagði að stjórnvöld vildu veita öryggisyfirvöldum heimild til að hlera rafræn samskipti um miðla á borð við Skype og Viber. Ef fyrirliggjandi hugmyndir verða að raunveruleika, mun sænska leyniþjónustan einnig geta haft eftirlit með dulkóðuðum upplýsingum.

Þá fela tillögurnar í sér að tímabundið landamæraeftirlit verði framlengt til 11. desember nk.

Lofven sagði einnig að samkvæmt nýjum lögum yrði óheimilt að taka þátt í hryðjuverkaþjálfun, ferðast til að fremja hryðjuverk, ferðast með það í huga að taka þátt í þjálfun fyrir hryðjuverkastarfsemi og að fjármagna slík ferðalög.

Viðbúnaður var aukinn í Svíþjóð í gær, á sama tíma og yfirvöld tilkynntu að leit stæði yfir að manni sem væri grunaður um að hafa skipulagt hryðjuverk. Lögregla staðfesti í dag að um væri að ræða 25 ára mann að nafni Mutar Muthanna Majid, sem er frá Írak og hlaut þjálfun í Sýrlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert