Ekki mjög saklaus leigusali

Bendaoud er „foringi“ Rue Corbillon
Bendaoud er „foringi“ Rue Corbillon AFp

Eigandi íbúðarinnar þar sem höfuðpaur hryðjuverkaárásanna á París hélt til kemur fyrir dómara í París í morgun. Jawad Bendaoud var handtekinn á meðan áhlaupi lögreglu stóð aðfararnótt miðvikudags en á samfélagsmiðlum hefur leigusalinn verið borinn þungum sökum. 

Lögregla gerði áhlaup á íbúðina í úthverfi Parísar, Saint-Denis, í kjölfar hryðjuverkanna í París þar sem talið var fullvíst að höfuðpaurinn Abdelhamid Abaaoud væri í íbúðinni. Það reyndist rétt vera en hann var drepinn í áhlaupinu ásamt frænku sinni, Hasna Aitboulahcen og manni sem hefur ekki enn verið borin kennsl á. Að minnsta kosti ekki opinberlega.

Bendaoud hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan þá og á yfir höfði sér ákæru fyrir aðild að málinu. Lögregla fékk ábendingu um mögulega aðild hans að hryðjuverkunum eftir að sást til hans spjalla við Aitboulahcen kvöldið fyrir árásina. Lögregla hefur ekki viljað fullyrða neitt þar að lútandi og segir að þau hafi jafnvel verið að ganga frá greiðslu á leigunni. 

Aitboulahcen sótti síðan Abaaoud og annan mann í norðurhluta Parísar á stað sem talið er að þeir hafi falist á frá því hryðjuverkin voru framin 13. nóvember.

Ég vissi ekki að þeir væru hryðjuverkamenn

Skömmu áður en Bendaoud var handtekinn í Saint Denis sagði hann við fréttamann AFP að hann hafi lánað tveimur Belgum íbúðina í greiðaskyni við vin.

„Vinur bað mig um að hýsa tvo vini sína í nokkra daga,“ sagði Bendaoud. „Ég sagði að það væru engar dýnur (í íbúðinni) en þeir sögðu mér að það væri ekkert vandamál. Það eina sem þeir þurftu væri vatn og staður til að biðja,“ sagði Bendaoud áður en hann var handjárnaður og leiddur burtu af lögreglu.

„Ég var beðinn um greiða. Ég varð við því, ég vissi ekki að þeir væru hryðjuverkamenn.“ 

Alls létust 130 og yfir 350 særðust í árásunum í París föstudagskvöldið 13. nóvember.

Með þrettán dóma á bakinu

Jawad Bendaoud er kannski ekki jafn saklaus og leit út í fyrstu því í fréttum franskra og breskra fjölmiðla hefur verið fjallað um feril hans en hann er dæmdur morðingi og stýrir glæpastarfsemi á þessu svæði þar sem íbúðin er til húsa í Saint-Denis. Hann er með alls þrettán dóma á bakinu frá árinu 2010.

Í janúar í ár var hann sendur í fangelsi í tíu mánuði fyrir aðild að ofbeldisverkum í hverfinu. Þar var hann handtekinn við viðskipti með ólögleg vopn.

Skar vin sinn á háls

Í nóvember 2008 var Bendaoud dæmdur fyrir sakadómi í Bobigny fyrir að hafa ráðist á annan mann og drepið hann. Um var að ræða vin hans, David, sem var sextán ára. Atvikið átti sér stað á annan dag jóla á Rue de Corbillion í St-Denis – sömu götu og íbúðin er sem lögregla gerði áhlaup á fyrir sex dögum. Félögunum lenti saman en slagsmálin enduðu með því að Bendaoud skar David á háls með kjöthníf.

Þegar Bendaoud var látinn laus sagði móðir Davids að hætta stafaði af Bendaoud en hann var látinn laus í september 2013 og fljótlega varð hann „foringi“ Rue Corbillon. Það var ekki nóg með að hann tengdist eiturlyfjaviðskiptum heldur sá hann um að hreinsa í burtu leigjendur sem ekki gátu greitt leiguna, segir í frétt Daily Mail.  Þar er haft eftir fólki í hverfinu að hann sé bæði ofbeldishneigður og hættulegur og þekktur glæpaforingi á svæðinu sem er þekkt fyrir eiturlyfjasölu. Svipaða sögu hafa viðmælendur Le Parisien af leigusalanum.

Umfjöllun Le Monde

Skjáskot af Slate.fr - Twitter færslur Jawad Bendaoud
Skjáskot af Slate.fr - Twitter færslur Jawad Bendaoud
Frá íbúðinni við Rue de Corbillion
Frá íbúðinni við Rue de Corbillion -
AFP
Húsið við Rue Corbillon
Húsið við Rue Corbillon AFP
KENZO TRIBOUILLARD
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert