Bandaríkjamenn varaðir við ferðalögum

Bandarísk yfirvöld hafa gefið út ferðaviðvörun fyrir þegna sína sem gildir um ferðalög alls staðar í heiminum. Viðvörunin beinist að hættu á hryðjuverkaárásum.

Í viðvöruninni er vísað til upplýsinga um Ríki íslams, al-Qaeda, Boko Haram og annarra hryðjuverkasamtaka sem ætli sér að fremja hryðjuverk víða. Viðvörunin gildir til 24. febrúar 2016.

Í samtali við BBC segir fulltrúi utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna að ekki sé talið að hryðjuverkaárásum verði sérstaklega beint að Bandaríkjamönnum.

Áfram verður í gildi hæsta viðbúnaðarstig í Brussel í viku í viðbót en þar óttast með svipaðar árásir og þær sem voru gerðar í París 13. október og kostuðu 130 mannslíf. Aftur á móti verður skólastarf með eðlilegum hætti og eins almenningssamgöngur.

Sprengjubelti fannst í ruslatunnu í úthverfi Parísar, Montrouge, en talið er að árásarmaðurinn sem er á flótta hafi farið um hverfið á flótta frá París eftir árásirnar. 

Frakkar gerðu sínar fyrstu loftárásir frá flugmóðurskipinu Charles de Gaulle á Ríki íslams  í gær. Árásirnar beindust bæði gegn skotmörkum í Írak og Sýrlandi.

Í viðvörun til þegna bandaríska ríkisins er fólk beðið um að sýna ýtrustu varkárni á fjölmennum stöðum og í almenningssamgöngum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert