Leið betur eftir dvöl í bústaðnum

Frá Noregi.
Frá Noregi. Ljósmynd/Norden.org

Heimildir norska ríkisútvarpsins herma að unglingsstúlkan sem fannst látin í sumarhúsi á kvöldi nýársdags hafi orðið fyrir miklu einelti í grunnskóla. Líkt og áður hefur komið fram glímdi hún við átröskun og þurfti nokkrum sinnum að leggja hana inn á sjúkrahús vegna veikindanna. Talið er að stúlkan hafi látist úr vannæringu.

Norskir fjölmiðlar greina frá því að stúlkan hafi oft skipt um skóla, meðal annars vegna eineltisins. Í haust hóf hún nám í safnskóla þar sem nemendur úr þremur hverfum koma saman.

Strax fyrsta daginn lagði móðir stúlkunnar, sem grunuð er um alvarlega vanrækslu og að hafa ekki komið dóttur sinni til hjálpar, fram kvörtun vegna sálfélagslegs umhverfis skólans. Kvörtunin barst skólanum 19. ágúst og 9. ágúst fékk skólinn tilkynningu um að móðirin hefði ákveðið að flytja dóttur sína þar sem mæðgurnar voru ekki ánægðar með þær ráðstafanir sem gerðar voru. Fljótlega eftir þetta fluttu mæðgurnar í sumarhús fjölskyldunnar en móðirin sótti um leyfi til heimakennslu fyrir stúlkuna fyrr um haustið.

Stúlkan dvaldi oft á sjúkrahúsi vegna átröskunarinnar. „Ég vil ekki borða, ég er feit,“ á stúlkan að hafa hrópað og hlaupið út af spítalanum með móður sína á eftir sér, samkvæmt heimildum NRK.

NRK ræddi við vin fjölskyldunnar sem sagði að meginástæða þess að mæðgurnar hefðu flutt í sumarhúsið hefði verið vatnsleki í íbúð þeirra í Bærum. Sagði hann einnig að móðirin hefði oft farið með stúlkuna í sumarhúsið þegar hún var sem veikust og virtist stúlkan hafa það betra eftir að hafa dvalið þar.

Yfirheyrslur yfir móðurinni hófust í gær og verður þeim haldið áfram í dag.

Fréttir mbl.is um málið: 

Lést líklega vegna vannæringar

Stúlkan hafði glímt við átröskun

Lögregla leitaði að mæðgunum

Grunuð um að hafa banað dóttur sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert