Nýtt fyrirbæri í sögu finnskra kynferðisglæpa

Frá Helsinki.
Frá Helsinki. mbl.is/GSH

Samkvæmt finnsku lögreglunni höfðu hælisleiteindur sem hittust í Helsinki á gamlárskvöld „svipaðar áætlanir“ og hópar karlmanna sem réðust að konum með kynferðislegu ofbeldi á nýársnótt í Köln. Frá þessu greinir Telegraph.

Segir miðillinn þrjá íraska hælisleitendur hafa verið handtekna í Helsinki fyrir kynferðisbrot við hátíðarhöld á torgi framan við þinghús Finna þar sem um 20 þúsund manns komu saman. Lögregla segir mikið hafa verið um kynferðislega áreitni á meðan á hátíðarhöldunum stóð og að konur hafi kvartað yfir að hælisleitendur hafi káfað á brjóstum þeirra og kysst þær án leyfis.

„Þetta fyrirbæri er nýtt í sögu kynferðisglæpa í Finnlandi,“ sagði Ilkka Koskimaki, aðstoðarlögreglustjóri borgarinnar,í samtali við Telegraph. „Við höfum aldrei áður upplifað þessa tegund af kynferðisáreitni á gamlárskvöld.“

Hann sagði lögreglu hafa fengið ábendingar frá starfsfólki í miðstöðvum hælisleitenda.

„Þær upplýsingar sem við fengum frá þessum móttökumiðstöðvum voru að ófriður og aðrir glæpir myndu eiga sér stað í miðborginni. Við vorum undirbúin fyrir slagsmál, kynferðislega áreitni og þjófnaði.“

Sagði hann lögreglu hafa verið með mikinn mannafla á svæðinu til að hafa stjórn á u.þ.b. 1.000 írönskum hælisleitendum sem safnast höfðu saman í göngum í kringum aðallestarstöðina um klukkan ellefu um kvöldið.

Sagði Koskimaki kynferðisofbeldi í görðum og á götum úti hafa verið óþekkt í Finnlandi áður en 32 þúsund hælisleitendur komu til landsins á síðasta ári.

„Við höfum því miður tekið við mjög hrottalegum málum í haust,“ sagði hann. „Ég þekki ekki vel til annarra menningarheima en ég hef komist að því að hugsanagangur sumra þeirra er mjög ólíkur okkar eigin. Sumir þeirra halda kannski að það sé leyfilegt að vera árásargjarn og snerta konur á götum úti.“

Kolröng mynd af atburðum

Ekki eru allir sáttir við aðdróttanir lögreglunnar. Segir Jamel Saltne, finnskumælandi Íraki, að miðað við það sem hann hefði séð á arabískum samfélagsmiðlum væri lögregla að gefa kolranga mynd af atburðum.

„Það sem gerðist var ekki niðurstaða fyrirfram skipulagðs átaks,“ sagði hann við Telegraph. „Það var algjörlega viðbúið að ungir menn myndu fara í miðbæ borgarinnar þar sem það er besti staðurinn til að fagna gamlárskvöldi.“

Sagðist Saltne ekki vera að ásaka lögregluna um kynþáttafordóma en sagði hana hugsanlega hafa fengið kvartanir sem ætlað var að ata mannorð innflytjenda auri.

Kynferðisbrotin hafa vakið mikla reiði sem margir Finnar beina að metfjölda hælisleitenda til landsins á síðasta ári.

Óvopnaðir en „varðhópar“ sem kalla sig „Hermenn Óðins“, íklæddir svörtum jökkum og höttum sem merktir eru „S.O.O“ hafa sprottið upp í mörgum bæjum í Finnlandi þar sem hælisleitendur eru hýstir. Segjast hóparnir vilja vernda borgara frá „íslömskum boðflennum“.

Innanríkisráðherra Finnlands, Petteri Orpo, fordæmdi hópana í nýlegu viðtali við ríkismiðilinn YLE.

„Það eru öfgamerki að halda uppi götuvöktum. Það eykur ekki öryggi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert