Verður til „mini-Schengen“?

AFP

Frá því fyrir jól hefur sú hugmynd ítrekað skotið upp kollinum innan Evrópusambandsins að í stað Schengen-svæðisins verði sett á laggirnar minni útgáfa af samstarfinu sem kölluð hefur verið „mini-Schengen“. Hugmyndin hefur einkum verið viðruð af hollenskum ráðamönnum en samkvæmt henni myndi minnkað Schengen-svæði ná til fimm ríkja í stað 26 eins og staðan er í dag. Það er Hollands, Þýskalands, Austurríkis, Belgíu og Lúxemborgar. Ísland er eitt aðildarríkja Schengen og gætir sem slíkt hluta af ytri mörkum svæðisins.

Fjallað var um málið á fréttavefnum Euobserver.com í gær. Þar segir að hollenskir ráðherrar hafi neitað því fyrir helgi að stjórnvöld í Hollandi væru með hugmyndina til formlegrar skoðunar. Hins vegar hafi Klaas Dijkhof, ráðherra innflytjendamála í hollensku ríkisstjórninni, sagt við Evrópuþingmenn í þingnefnd um borgaraleg réttindi að hugsanlega yrði hugmyndinni sett í framkvæmd sem síðasta úrræði ef aðrar leiðir reyndust ekki færar.

Frétt mbl.is: „Jafnvel þó ekki sé beðið um aðstoð“

Ennfremur segir í frétt EUobserver.com að næsta skref Evrópusambandsins, varðandi vanda Schengen-svæðisins í kjölfar þess að gríðarlegur fjöldi förufólks og flóttafólks komst inn fyrir ytri mörk svæðisins, sé að koma á sjálfstæðri landamæralögreglu og strandgæslu sambandsins fyrir lok júlí í sumar sem hefði vald til þess að grípa inn í eftirlit á ytri mörkum Schengen-svæðisins ef einstök ríki samstarfsins væru ekki að sinna því verki nægjanlega vel.

Fram kemur að Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, hafi kallað eftir því að komið yrði á sérstakri landamæralögreglu Evrópusambandsins með hraði og ennfremur að sérstakur fundur leiðtogaráðs sambandsins færi fram um málið. Slóvakía tekur yfir forsætið í ráðherraráði Evrópusambandsins í byrjun júlí og hefur það með höndum þar til í lok þessa árs.

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu.
Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert