Assange verður yfirheyrður

Julian Assange. Myndin er frá 2013.
Julian Assange. Myndin er frá 2013. AFP

Stjórnvöld í Ekvador hafa tilkynnt að þau hyggist vinna með yfirvöldum í Svíþjóð, sem hafa formlega óskað eftir því að yfirheyra Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Hann dvelur í sendiráði Ekvador í Lundúnum.

„Við munum vinna með sænskum yfirvöldum svo að þau geti tekið niður einhverjar yfirlýsingar. Við höfum sagt það frá upphafi,“ sagði Ricardo Patino, utanríkisráðherra Ekvador, í viðtali við fréttasíðuna Ecuadorin mediato.

Hann sagði að yfirheyrslurnar myndu fara fram samkvæmt lögum Ekvador, þar sem hinn 44 ára Ástrali, sem hefur verið sakaður um kynferðisbrot, væri á þeirra yfirráðasvæði. Patino sagðist ekki vita nákvæmlega hvernig farið yrði að en að Assange yrði yfirheyrður af saksóknurum frá Ekvador. Fulltrúar sænska ákæruvaldsins fengju að vera viðstaddir.

Assange hefur dvalið í sendiráðinu frá 2012 og neitað að ferðast til Svíþjóðar þar sem hann óttast að þaðan yrði hann framseldur til Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum á hann yfir höfði sér ákærur fyrir að hafa birt þúsundir leyniskjala. Hann hefur ítrekað sagst saklaus af þeim brotum sem hann hefur verið sakaður um í Svíþjóð.

Patino varpaði fram þeirri spurningu hvers vegna stjórnvöld í Svíþjóð hefðu beðið svo lengi með því að fara formlega fram á að fá að yfirheyra Assange samkvæmt lögum Ekvador. Sagði hann tafirnar gefa grunsemdum byr undir báða vængi.

Hann sagðist trúa því að Assange sætti ofsóknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert