Á leið til Madaya með meiri birgðir

Bílalestin bíður í útjaðri borgarinnar.
Bílalestin bíður í útjaðri borgarinnar. AFP

Bílalest Sameinuðu þjóðanna er nú á leið til sýrlensku borgarinnar Madaya með neyðarbirgðir en síðasta sending kom á mánudaginn. Að sögn vitna eru fjölmargir í borginni að svelta en setið hefur verið um borgina af stjórnarher Sýrlands í marga mánuði.

Bílalestin samanstendur af fimmtíu vörubílum sem flytja til borgarinnar hveiti, lyf, teppi og vetrarföt. Vonast er til þess að birgðirnar nái til Madaya í dag. 

Nú stendur einnig yfir flutningur birgða til borganna Fua og Kafraya en setið er um þær borgir af sveitum uppreisnarmanna.

Þegar að bílalestin kom til Madaya á mánudaginn var hún með matarbirgðir sem ættu að duga 40.000 íbúum borgarinnar í mánuð.

Að sögn heimildarmanns CNN innan Sameinuðu þjóðanna stendur ekki til að flytja 400 manns frá borginni sem sagðir eru þurfa nauðsynlega læknishjálp vegna vannæringar. Læknar og næringarfræðingar sem komu með bílalestinni munu hlúa að þeim inni í borginni í staðinn.

Sendingin sem kom á mánudaginn var fyrsta sending neyðarbirga til borgarinnar síðan í október á síðasta ári. Mátti sjá hungraða íbúa borgarinnar gráta þegar þeir sáu bílalestina nálgast.

Stríðið í Sýrlandi hófst í mars 2011. Rúmlega 250.000 Sýrlendingar, aðallega almennir borgarar, hafa látið lífið samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðanna. Um 10,5 milljónir Sýrlendinga hafa þurft að flýja heimili sín. Fjórar milljónir þeirra hafa yfirgefið Sýrland.

Frétt CNN. 

Um 40.000 manns búa í Madaya.
Um 40.000 manns búa í Madaya. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert