Tugir þúsunda Sýrlendinga flýja

Tugir þúsunda Sýrlendinga flúðu heimili sín í dag í kjölfar þess að hersveitir Sýrlandsstjórnar hófu mikla sókn í kringum borgina Aleppo með stuðningi rússneskra herflugvéla. Forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, sagði á leiðtogafundinum í London um ástandið í Sýrlandi að um 70 þúsund manns væru á leið til heimalands hans á flótta vegna átakanna.

Fram kemur í frétt AFP að bæði Davutoglu og mannréttindasamtök hefðu sagt að um 300 þúsund manns væru innilokuð í Aleppo eftir að sýrlenskir stjórnarhermenn lokuðu helstu leið uppreisnarmanna til borgarinnar. Haft er eftir blaðamanninum Maamoun al-Khateeb að almennir borgarar væru innikróaðir og þeir sem kæmust undan gætu aðeins flúið til Tyrklands.

Þannig væri stjórnarhermönnum Sýrlands að mæta í suðri, liðsmönnum Ríkis íslams í austri og Kúrdum í vestri. Eina leiðin væri því í norður til Tyrklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert