Þrjú og hálft ár í sendiráðinu

Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvador.
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvador. AFP

Nýútgefin skýrsla SÞ er nýjasti vinkillinn í máli þar sem tæknivæddir aðgerðasinnar hafa barist gegn ofurefli yfirvalda. Í hringiðunni stendur Ástralinn Julian Assange, sem hefur nú búið í þrjú og hálft ár á skrifstofu sendiráðs Ekvadors í London, þar sem hann forðast handtöku af hálfu bresku lögreglunnar.

Í skýrslunni, sem gefin var út í dag á vegum sérstakrar nefndar Sameinuðu þjóðanna, er kallað eftir því að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, fái að ganga frjáls ferða sinna. 

Óttast framsal til Bandaríkjanna

Yfirvöld í Svíþjóð vilja að Assange verði framseldur til landsins vegna ásakana um að hann hafi þar nauðgað tveimur konum árið 2010. Assange og stuðningsmenn hans telja hins vegar að um brellu sé að ræða, sem ætlað sé að koma honum til Svíþjóðar þar sem hann verði svo framseldur bandarískum yfirvöldum. Þar verði svo réttað yfir honum vegna opinberunar skjala sem áttu að vera leynileg í fórum stjórnvalda.

Fyrri frétt mbl.is: Konurnar sem ásaka Assange

Sendiráðið stendur án garðs í hinu glæsilega Knightsbridge-hverfi, gegnt Harrods-versluninni frægu, og hefur Assange lýst vist sinni þar við það að lifa um borð í geimstöð. Stundum má sjá hann á svölum byggingarinnar en þangað fer hann sjaldan sökum ótta um öryggi sitt. Hann tekur þó reglulega þátt í ráðstefnum með hjálp myndsímtala.

Fulltrúar fjölmargra fjölmiðla hafa mætt fyrir utan sendiráðið í dag.
Fulltrúar fjölmargra fjölmiðla hafa mætt fyrir utan sendiráðið í dag. AFP

Eftirlitið hefur kostað tvo milljarða

Lund­úna­lög­regl­an Scot­land Yard hefur sólarhringseftirlit með sendiráðinu. Var kostnaður við eftirlitið á síðasta ári talinn hafa numið allt að tíu millj­ón­um punda, eða sem sam­svar­ar um tveim­ur millj­örðum króna.

Róttæk afstaða hans til afhjúpunar leyniskjala hefur valdið því að hann er ýmist virtur sem hetja eða gagnrýndur fyrir að hafa sett líf fólks í hættu, með því að gera leyniskjöl yfirvalda opinber.

Assange stofnaði ásamt fleirum Wikileaks árið 2006 hér á landi og var það einfalt í sniðum. Með hjálp öruggrar skilaskjóðu (e. drop box) gátu uppljóstrarar lekið leynilegum gögnum án þess að óttast að upp um þá kæmist.

Birtu gríðarlegan fjölda gagna

Nafn Assange gat svo fyrst að líta í fyrirsögnum í apríl árið 2010 þegar Wikileaks opinberaði upptökur þar sem sjá mátti bandaríska herþyrlu skjóta niður borgara og tvo fréttamenn Reuters í Írak.

Síðar sama ár beindist kastljósið aftur að Wikileaks þegar gríðarlegum fjölda gagna var sleppt á netið. Um 77 þúsund leyniskjöl Bandaríkjanna um Afganistan fóru á vefinn í júlímánuði og í október hlutu 400 þúsund skjöl um Írak sömu örlög.

Mánuði síðar olli Wikileaks mesta uppnáminu til þessa þegar opinberuð voru meira en 250 þúsund samskiptabréf á milli 274 sendiráða Bandaríkjanna. Naut vefurinn í kjölfarið mikils stuðnings vinstrimanna fyrir að hafa ljóstrað upp um leyndarmál hinna máttugu ríkisstjórna.

Breski tískuhönnuðurinn og aðgerðasinninn Vivienne Westwood reiðir hjól sitt þar …
Breski tískuhönnuðurinn og aðgerðasinninn Vivienne Westwood reiðir hjól sitt þar sem hún yfirgefur sendiráðið, en hún átti þar fund með Assange í gær. AFP

Flúði inn um dyr sendiráðsins

Ásakanir um nauðganir og kynferðislega áreitni í garð Assange komu fyrst á yfirborðið í ágúst sama ár, 2010. Aðeins nokkrum dögum áður en sendiráðsskjölin voru birt gáfu sænsk yfirvöld út handtökuskipun á hendur honum. Mánuði síðar var hann handtekinn í London.

Árið 2012 náði hann svo að flýja inn um dyr ekvadorska sendiráðsins þegar allir lögfræðilegir kostir hans höfðu verið tæmdir gagnvart breskum yfirvöldum. Hann hefur statt og stöðugt haldið því fram að ásakanirnar séu af pólitískum toga og geti á endanum leitt til framsals hans til Bandaríkjanna, þar sem hann gæti verið dæmdur til dauða.

Yfirvöld ekki á sama máli

Í kjölfar útgáfu skýrslunnar mun Assange í dag fara fram á að yfirvöld í Bretlandi og Svíþjóð hætti við fyrirætlanir um handtöku hans, svo hann geti yfirgefið sendiráðið.

Yf­ir­völd í Svíþjóð og Bretlandi eru þó ekki á sama máli og segja Assange hafa valið að forðast lög­mæta hand­töku með því að dvelja í sendi­ráðinu. Þau eru ekki bund­in af niður­stöðu nefnd­ar SÞ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert