Innflytjendamálin stærsta málið

AFP

Um 40% Svía telja að innflytjendamál og samþætting séu stærstu málin sem landsmenn standa frammi fyrir. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun.

Innflytjendamálin hafa þar með tekið við af menntamálunum þegar kemur að mikilvægi mála við val kjósenda á stjórnmálaflokkum, segir í frétt Dagens Nyheter (DN) sem birti könnunina sem er unnin af Ipsos.

Í júní í fyrra töldu 20% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að innflytjendamál og samþætting lykilmál í stjórnmálum Svíþjóðar en árið 2010 voru það aðeins 5% þátttakenda sem töldu þessi mál mikilvægust þegar kæmi að vali á stjórnmálaflokki.

AFP

Upplýsingafulltrúi Ipsos, Johanna Laurin Gulled, segir að aldrei áður hafi slík umskipti sést í skoðanakönnun og nú varðandi hvaða mál séu mikilvægust.

Aðeins 17% þátttakenda telja að Stefan Löfven, forsætisráðherra og formaður jafnaðarmanna, sé með bestu stefnuna í innflytjendamálum, 21% telur að Svíþjóðardemókratar, sem er þjóðernisflokkur, sé með bestu stefnuna varðandi innflytjendur.

AFP

Gulled segir að staða Svíþjóðardemókrata sé sterk en það er einmitt flokkurinn sem er á bak við spurninguna um hvaða málefni sé mikilvægast, það er innflytjendamál og aðlögun þeirra.

Mið- og hægriflokkarnir í Svíþjóð eru að herða afstöðu sína til innflytjenda og í síðustu viku lagði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Moderate, til að hlé yrði gert á móttöku hælisleitenda. Þetta virðist hins vegar ekki hafa náð til kjósenda sem tóku þátt í könnun Ipsos því aðeins 13% þátttakenda töldu Moderate-flokkinn með bestu stefnuna í innflytjendamálum.

Alls setja 18% þátttakenda menntamál í fyrsta sæti í vali á stærsta málinu í sænskum stjórnmálum.

Frétt DN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert