Donald Trump fékk flest atkvæði í forvaldi repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Suður-Karólínu en Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri í Flórída hefur ákveðið að hætta þátttöku en hann hafnaði í fjórða sæti.
Í Nevata fór Hillary Clinton með sigur af hólmi í forvali demókrata og var sigur hennar nokkuð öruggur, hún fékk 52,7% atkvæða á meðan Bernie Sanders fékk 47,2%.
Sigur Trumps var líka mjög sannfærandi og virðist allt stefna í að hann verði fulltrúi Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum. Trump fékk 32,5% atkvæða á meðan Marco Rubio fékk 22,5% og Ted Cruz fékk 22,3% atkvæða.
Bush greindi frá ákvörðun sinni þegar ljóst var að hann hafði hafnað í fjórða sæti forvalsins í Suður-Karólínu. „Í kvöld hætti ég kosningabaráttunni,“ sagði Bush með tárin í augunum eftir að úrslitin voru ljós.
Bush, sem er sonur forseta og bróðir annars forseta, naut mikils stuðnings þegar hann fyrst tilkynnti um framboð sitt en fljótlega tók Trump forystuna og hefur haldið henni nánast síðan.