Morales leitar sonar síns

Evo Morales Ayma
Evo Morales Ayma AFP

Forseti Bólivíu, Evo Morales, hefur höfðað mál gegn fyrrverandi unnustu sinni og krefst þess að hitta son sinn sem hann hélt að hefði látist fyrir níu árum síðan.

Á vef BBC er haft eftir Morales að gæfi móður drengsins, Gabriela Zapata, fimm daga til þess að koma með drenginn til yfirvalda. 

Á mánudag sagðist Morales vilja hitta son sinn eftir að ættingi Zapata sagði að drengurinn væri á lífi og byggi á leynilegum stað í Bólivíu. En nú hefur hann bætt um betur og segist sannfærður um að sonur hans sé ekki á lífi.

 „Ég er algjörlega sannfærður um að drengurinn hafi því miður dáið,“ sagði Morales á blaðamannafundi í gær.

Hann átti í ástarsambandi við Zapata á árunum 2005-2007 en það ár varð hún þunguð og sonur þeirra fæddist. Zapata tjáði Morales að sonur þeirra hafi veikst skömmu eftir fæðingu og látist. 

„Ég spyr mig að því hvers vegna þau hafi falið hann fyrir mér síðan 2007? Hver er ástæðan fyrir því að þau fjarlægðust mig?,“ sagði forsetinn á mánudag.

Ráðherra gagnsæis, Lenny Valdivia, segir að frásögn móðurinnar um hvað hafi gerst síðan 2007 sé full af mótsögnum. Hún hafi tjáð forsetanum að barn hafi fæðst. Þá lét hann hana fá peninga til þess að ala hann upp. Það var ekki fyrr en hann krafðist þess að sjá barnið, mörgum árum síðar, að hún sagði að barnið hefði látist, segir Valdivia, samkvæmt frétt BBC.

Zapata sem er tæplega þrítug var handtekin á laugardag í tengslum við rannsókn á spillingarmáli en hún er háttsett hjá kínversku byggingarfyrirtæki, CAMC.

Í síðasta mánuði greindu fjölmiðlar í Bólivíu frá því að fyrirtækið hafi fengið fjölmarga verksamninga á vegum ríkisins og eru þeir metnir á hálfan milljarð Bandaríkjadala.  Fjölmiðlar saka Morales um að beitt sér fyrir hönd fyrirtækisins vegna tengsla hans við Zapata. Morales neitaði ásökunum og sagði þær hluta af herferð hægri manna gegn sér áður en gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni. Með þjóðaratkvæðagreiðslunni var Morales að reyna að tryggja það að hann gæti boðið sig fram í fjórða skiptið til embættis forseta en varð að lúta í lægra haldi í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það er því ljóst að hann lætur af embætti forseta árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert