Varar við hruni evrusvæðisins

AFP

Knýji efnahagssamdráttur dyra á ný innan Evrópusambandsins gæti það leitt til hruns evrusvæðisins að mati svissneska fjárfestingabankans Credit Suisse. Fram kemur í nýrri skýrslu hagfræðinga bankans „Close to the edge“ að örlög myntbandalagsins yltu á því hvort stjórnmálamenn innan ríkja þess gætu afstýrt nýrri niðursveiflu og þannig haldið aftur af populískum stjórnmálahreyfingum sem væru andvígar evrunni.

„Lífslíkur evrunnar eru háðar yfirstandandi efnahagsbata. Lendi evrusvæðið í samdrætti á nýjan leik er óvíst hvort það eigi eftir að þola það,“ er haft eftir Peter Foley hjá Credit Suisse á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Tekið er fram í skýrslunni að þó efnahagsbatinn sem verið hefur í gangi ætti eftir að ætti að öllum líkindum eftir að halda áfram á næstu mánuðum þá væru ýmsar blikur á lofti. Þar á meðal samdráttur í iðnaðarframleiðslu, verri skuldastaða bankakerfisins og óstöðugleiki á mörkuðum.

Fram kemur í fréttinni að hagvöxtur á evrusvæðinu hafi aðeins verið 0,3% á síðasta ársfjórðungi 2015 þrátt fyrir skuldabréfakaup Evrópska seðlabankans og lækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu. Ólíkt Bandaríkjunum og Bretlandi væri hagvöxtur á svæðinu enn minni en þegar hann var mestur fyrir efnahagskrísuna. Stöðnun hafi ríkt á Ítalíu, þriðja stærsta hagkerfi evrusvæðisins, í lok síðasta árs og samdráttur hefði á ný hafið innreið sína í Grikklandi. Þá væri hagvöxtur í Þýskalandi, stærsta hagkerfi svæðisins, aðeins 0,3%.

Samhliða þessu dróst verðbólga saman í febrúar sem leitt hefur til vaxandi áhyggja af því að evrusvæðið sé fast í gildru lágs hagvaxtar eins og það er orðað og fyrir vikið sé ekki fyrir hendi nauðsynlegt svigrúm til þess að takast á við vaxandi skuldasöfnun. Þetta hefur leitt til aukins þrýstings á bæði Evrópska seðlabankann og ríkisstjórnir evruríkjanna að grípa til frekari aðgerða til að örva efnahagslífið. Haft er eftir Foley að takist það ekki myndi það í för með sér óbætanlegan skaða á evrusvæðinu. 

Fram kemur í skýrslunni að vaxandi atvinnuleysi, lækkandi eignaverð og vaxandi vaxtakostnaður vegna skuldsetningar myndi vera vindur í segl populískra stjórnmálahreyfinga um alla Evrópu sem væri andvígar evrunni. Bankar á evrusvæðinu, sem stæðu almennt höllum fæti, gætu lent í nýrri fjármálakrísu samhliða minni hagnaði af rekstri þeirra og samdrætti í útlánum. Hættan á nýrri niðursveiflu, sem gæti valdið evrusvæðinu miklu tjóni bæði efnahagslega og pólitískt, væri veruleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert