AfD á mikilli siglingu

AFP

Þýski stjórnmálaflokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD) eykur mjög fylgi sitt í nýrri skoðanakönnun og er nú þriðji stærsti flokkurinn í Hesse. AfD er hægri sinnaður þjóðernisflokkur sem meðal annars berst gegn innflytjendum og Evrópusambandinu. Um helgina fara fram kosningar í nokkrum sambandsríkjum í Þýskalandi. 

Fylgi AfD mælist 13,2% í Hesse en flokkurinn komst í sviðsljós fjölmiðla í janúar eftir að hafa lagt til að lögregla skyti á flótta- og farandfólk sem reyndi að komast yfir landamærin. 

Mjög hefur dregið úr fylgi Kristilegra demókrata (CDU), flokks Angelu Merkel, kanslara, eða um 5,5%. Fylgið mælist nú 28,2% og fylgi jafnaðarmanna (SPD) 28%.  

Eva Hoegl, varaþingflokksformaður SPD, segist hræðast þessa niðurstöðu en framkvæmdastjóri CDU í Hesse, Manfred Pentz, segir að það bendi til þess að kjósendur vilji hegna Merkel og flokki hennar fyrir frjálslynda stefnu varðandi komu flóttafólks til landsins.

Merkel segir í viðtali við Bild am Sonntag að AfD sé flokkur sem vilji sundra og bjóði kjósendum ekki upp á neinar viðeigandi lausnir við vandanum heldur ali á hroka og hleypidómum.

AfD er með þingmenn á fimm héraðsþingum sem og Evrópuþinginu. Nú bendir allt til þess að flokkurinn fái menn kjörna í nokkrum sambandsríkjum á sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert